Mánudagur 27. apríl 2015

Vefþjóðviljinn 117. tbl. 19. árg.

Refsigleði er einn af mörgum fylgifiskum bankahrunsins. 

Gjaldþrot fyrirtækja á borð við banka er auðvitað hvimleitt fyrir kröfuhafa, hluthafa og aðra sem tapa fjármunum sínum. En mislukkaður atvinnurekstur verður ekki reistur við eða glataðir fjármunir endurheimtir með því að varpa mönnum í fangelsi, þótt sjálfsagt sé að menn hljóti refsingu fyrir sviksemi hafi hún átt sér stað.

Hluti af refsigleðinni felst í léttvægu tali um fangelsisvist. Annars vegar er látið eins og til að mynda árs vist í fangelsi sé nú hálfgert grín. Hins vegar er látið eins og sjálf vistin sé lúxus. 

Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er elsta fangelsi landsins, byggt 1874. En innan tíðar verður hætt að læsa menn þar inni. Að því tilefni ræddi Morgunblaðið við Guðmund Gíslason, forstöðumann Hegningarhússins.

Guðmundur segir marga fanga eiga erfitt með að horfast í augu við þá staðreynd að þeir séu komnir í fangelsi. Því geti fylgt mikil vanlíðan sem takast þurfi á við. Læknir og hjúkrunarfræðingur eru með starfsaðstöðu í húsinu, einnig er þjónusta sálfræðinga og félagsráðgjafa veitt eftir þörfum. „Það er oft eins og samfélagið átti sig ekki á því sem gerist þegar fólk er svipt frelsi sínu. Við, sem vinnum hérna, sjáum hvaða áhrif þetta hefur á menn. Stundum er talað um fangelsisvist sem lúxus- og letilíf, að allt sé gert fyrir „þessa fanga“ og stundum er sagt að ekki sé beitt nógu mikilli hörku og svo framvegis. Í hverju ætti sú harka að felast og hvað ætti að nást fram með henni? Fólk er svo fljótt að dæma, ekki síst á netmiðlunum. Það sem gleymist er að sá sem fer í fangelsi losnar út eftir tiltekinn tíma. Viljum við ekki að hann verði betri maður eftir vistina? Auðvitað er það mikill bónus ef menn finna sig í námi eða starfi og halda því áfram eftir að þeir losna.“