Vefþjóðviljinn 115. tbl. 19. árg.
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefur að undanförnu boðað að vaxta- og húsaleigubætur verðir jafnaðar. Gott og vel. Þetta vakti kannski vonir einhverra um að ríkið myndi draga úr vaxtabótum sem geta verið mun hærri en húsaleigubætur. Bæturnar yrðu jafnaðar án þess að hækka reikning skattgreiðenda.
Vextir eins og verðlag á ýmsu öðru stjórnast af því hvað neytandinn er tilbúinn til að greiða. Þegar ríkið styrkir hann til að taka húsnæðislán hækka vextir að öllum líkindum því hann getur greitt meira. Stór hluti vaxtabótanna renna því til lánveitenda í gegnum lánþegann.
En auðvitað virðist ætlun félagsmálaráðherrans að hækka húsaleigubæturnar í stað þess að lækka vaxtabæturnar. Það er augljóst að við auknar húsaleigubætur mun húsaleiga hækka í verði. Þeir leigjendur sem áður treystu sér til að greiða 150 þúsund krónur munu geta greitt meira þegar þeir fá 25 þúsund kónum meira í vaxtabætur á mánuði. Við það mun leigan hækka, jafnvel um allt að 25 þúsund krónur.
Húsaleigubætur eru að mestu leyti styrkur til fasteignaeigenda.
Vaxtabætur eru að mestu leyti styrkur til banka.
Þessar bætur koma úr vösum almennra skattgreiðenda.