Vefþjóðviljinn 112. tbl. 19. árg.
Hvaða mál munu næstu kynslóðir Íslendinga tala og telja sig skilja? Hvaða hugtök verða þeim töm? Hvaða fótfestu munu þær hafa, svo sem í tungu, sögu og menningu?
Einfalda svarið við þessu eru auðvitað að „kynslóð“ muni ekki tala neina sérstaka tungu. Rétt eins og kynslóð þekki ekki til sögu, málfræði eða nokkurs annars. Slíkt geri aðeins einstaklingar. Það séu aðeins einstaklingar sem tala, hvorki þjóðir né kynslóðir.
Þetta er einfalda svarið og þeir sem hafa lengi minnt á að þjóðir hafi ekki vilja hljóta að skilja það svar vel. Á hinn bóginn hefur oft mátt segja að meginþorri fólks af hverri kynslóð hafi að mörgu leyti svipaðan grunn, hafi þannig nokkuð sambærilegan almennan orðaforða og svipaða grunnþekkingu á sögu og menningu lands síns og nálægra landa.
Það er ekkert óeðlilegt við að þeir, sem vilja til dæmis að íslenska haldi áfram að vera sérstakt lifandi tungumál sem lýtur eigin reglum og hefðum, hafi áhyggjur af því sem framtíðin kann þar að bera í skauti sér. Eða nútíðin.
Í vikunni skrifaði Linda Björk Markúsardóttir talmeina- og íslenskufræðingur grein í Fréttablaðið og sagði meðal annars:
Undanfarið hefur það færst í aukana að ég fái til mín alíslensk börn sem kunna ekki íslensku nema að litlu og yfirborðskenndu leyti. Þeim sýni ég myndir af algengum hlutum og bið þau að segja mér hvað þeir heita. Oft fæ ég svör á borð við: „Ég veit alveg hvað þetta er sko, ég bara kann þetta ekkert á íslensku.“ Þegar hún var spurð að því í viðtali hver ástæðan væri sagði hún að svarið væri einfalt: „Börn og unglingar lifa og hrærast í heimi rafrænna samskipta sem fara nánast öll fram á ensku. Tölvur og símar „tala“ mjög takmarkaða íslensku.
Hvað finnst íslenskum stjórnmálamönnum mikilvægast að gera í menntamálum? Jú, spjaldtölvur í leikskóla og grunnskóla. Ekki bækur, ekkert á blaði. Spjaldtölvur. Rafrænt námsefni. Eins langt niður í bernskuna og hægt er.
Annars leiðist börnunum.
Það eru ekki til peningar til að lækka útsvar. Það eru ekki til peningar til að borga niður skuldir. En ótrúlega víða er hægt að kaupa og kaupa spjaldtölvur. Þær hljóma víst svo vel þegar á að setja saman kosningastefnuskrá. Þá þarf að vera lausnamiðaður.
Ætli stjórnmálamenn haldi að það sem helst standi íslenskum ungmennum fyrir þrifum sé að þau séu ekki nægilega lengi með tölvur og síma í höndunum?
Það bara verði að fá þau til að líta upp úr bókunum og gefa tölvunni að minnsta kosti tækifæri?