Vefþjóðviljinn 111. tbl. 19. árg.
Á dögunum gaf ríkisstofnun sem nefnd er Græna orkan út skýrslu um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum. Því miður staðfestir skýrslan það sem hefur margsinnis komið fram á undanförnum misserum að lög um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum hafa haft skelfilegan kostnað í för með sér fyrir Íslendinga án nokkurs ávinnings fyrir umhverfið.
Í skýrslunni er sagt að notkun á endurnýjanlegu eldsneyti hafi tífaldast á Íslandi á undanförnum fimm árum. Þar er að mestu leyti um að ræða innflutta lífolíu. Þessi lífolía kostar í innkaupum um 550 dölum meira á hvert tonn en hefðbundin dísilolía. Aukakostnaður Íslendinga vegna eldsneytisinnkaupa var því mörg hundruð milljónir króna á síðasta ári. Þetta er því stórtjón í erlendum gjaldeyri fyrir þjóðina. Á sama tíma er almenningi skammtaður gjaldeyrir.
Við útkomu skýrslunnar í síðustu viku sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra í viðtali við Morgunblaðið í 15. apríl að hún væri „mjög ánægð með þann árangur sem náðst hefur í orkuskiptum í samgöngum“.
Það er síðan sjálfstæð vitleysa í þessu öllu saman að eldsneytisgjöld, sem ætlað er að renna til vegagerðar, séu felld niður af því eldsneyti sem kallað er endurnýjanlegt. Bílar sem ganga fyrir slíku eldsneyti slíta vegum til jafns við aðra bíla. Bíll gengur fyrir jurtaolíu slítur vegum auðvitað á sama hátt og bíll sem gengur fyrir bensíni.
Með skattalegum ívilnunum á borð við niðurfellingu bensíngjalda og olíugjalda er endurnýjanlegu eldsneyti beint inn á fólksbílamarkað þar sem gæðakröfur eru strangastar og notendur eiga enga möguleika á að fylgjast með gæðum. Ef einhvern tímann verður eitthvað framboð af innlendu eldsneyti mætti ætla að án stýringar ríkisvaldsins færi það fyrst og fremst til stórnotenda þar sem aðstaða og þekking er til staðar til að bregðast við misjöfnum gæðum.
Núverandi löggjöf beinir þessu eldsneyti hins vegar inn á hinn viðkvæma markað einkabíla.