Fimmtudagur 23. apríl 2015

Vefþjóðviljinn 113. tbl. 19. árg.

Ögmundur og Steingrímur eru mestu mátar. Á dögunum var rædd á alþingi tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu frá formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, formanni VG þeirra á meðal. 

Einhverjir héldu kannski að VG hefði þegar gert nægilega margar og langsóttar tilraunir til að koma Íslendingum í Evrópusambandið en nei nei flokkurinn heldur áfram að reyna.

Í þessum umræðum sagði Steingrímur J. Sigfússon meðal annars um möguleika Íslendinga á sérlausnum og undanþágum um sjávarútvegsmál þegar landið gengi í Evrópusambandið:

Malta fékk sannanlega vissar sérlausnir í sínum sjávarútvegsmálum fyrir sinn strandveiðiflota. Þær eru ekkert óskaplega umfangsmiklar en þær eru þar samt.

Skömmu síðar var Ögmundur Jónasson mættur í pontu og útskýrði málið frekar:

Og þótt Malta hafi fengið einhverjar undanþágur fyrir hornsílaveiðar í höfninni heima fyrir eða eitthvað annað ámóta sé hér dregið að húni sem stórkostlegir sigrar um undanþágur þá hef ég aldrei gefið neitt fyrir það. Þetta eru minni háttar atriði þegar um er að ræða að ganga í ríkjasamband sem vill verða ríki.

Á-i.