Þriðjudagur 14. apríl 2015

Vefþjóðviljinn 104. tbl. 19. árg.

Það var ekki hátt fallið við Hrunið samkvæmt helstu vísitölum sem mæla velsæld þjóða. Hrunríkið er víðast hvar í efstu sætum.
Það var ekki hátt fallið við Hrunið samkvæmt helstu vísitölum sem mæla velsæld þjóða. Hrunríkið er víðast hvar í efstu sætum.

Nokkrum sinnum á ári senda rannsóknastofnanir og félagasamtök frá sér lista yfir stöðu ríkja heims hvað ýmis mál varðar, jafnrétti, heilbrigðisþjónustu, menntun, hagsæld, umhverfismál, afbrot og spillingu og svo framvegis.

Undantekningarlítið er Ísland í hópi þeirra ríkja sem best standa.

Í Viðskiptablaðinu í dag er til að mynda sagt frá því að Ísland sé í fjórða sæti vísitölunnar Social Progress Index sem reynir að mæla hvernig grunnþörfum manna er mætt. Aðeins Noregur, Svíþjóð og Sviss standa betur en Ísland á þennan mælikvarða.

Þetta er óvæntur árangur í landi þar sem varð „Hrun“ fyrir örfáum árum og margir landsmenn tala þindarlaust um „Hrunið“ sem helsta viðburðinn í lífi sínu og prestur hóf jafnvel nýtt tímatal til heiðurs.

Ef að Ísland er hrunið ríki hvaða orð á þá eiginlega að nota yfir hin 150 ríkin sem jafnan eru neðar en Ísland á listum yfir hvers kyns lífsgæði?