Mánudagur 13. apríl 2015

Vefþjóðviljinn 103. tbl. 19.árg.

Í síðasta mánuði reyndi ríkisstjórn Íslands að afturkalla inngöngubeiðni landsins í Evrópusambandið. Einfaldasta leiðin hefði auðvitað verið að senda stutta tilkynningu til Evrópusambandsins um að inngöngubeiðnin væri afturkölluð.  Málinu hefði verið lokið. Það hefði ekki þvælst lengur fyrir neinum. Einsmálsflokkurinn hefði auk þess misst eina málið sitt. Þessi aðferð hefði verið vandræðalaus og eðlileg. Þess vegna var ekki hægt að fara hana. Þess vegna var ekki skrifað stutt og skýrt bréf, heldur annað bréf þar sem reynt var að segja sama hlutinn með óskýrara orðalagi, að því er virðist til þess að tryggja að ríkisstjórnin yrði ekki sökuð um að hafa gengið hreint til verks í þessu máli frekar en öðrum.

En svo getur líka verið að embættismennirnir í utanríkisráðuneytinu hafi komist í málið. Þeir ætla að tryggja að Ísland verði áfram umsóknarríki að Evrópusambandinu. Þeir ætla ekki að láta einhverja amatöra skemma það fyrir sér. Helmingurinn af kjörtímabilinu er að verða liðinn, og enn eru þeir ósigraðir.
Aðildarsinnar reyna mjög að halda því fram að meirihluti landsmanna vilji ekki afturkalla inngöngubeiðnina. Að meirihlutinn vilji að Ísland verði áfram umsóknarríki. Þótt menn vilji kannski ekki ganga í Evrópusambandið þá vilji meirihlutinn fá að „kíkja í pakkann“.

Andríki fékk MMR til að kanna hug kjósenda til þess hvort Ísland eigi að vera umsóknarríki að Evrópusambandinu. Könnunin fór fram dagana 31. mars til 7. apríl  Spurt var „Vilt þú að Ísland sé umsóknarríki að Evrópusambandinu?“ Niðurstaðan varð sú að 50,5% eru því andvígir að Ísland sé umsóknarríki að ESB en 49,5% því fylgjandi.

Þegar eingöngu eru teknir þeir sem afstöðu tóku, þá var niðurstaðan sú að 41,6% eru því fylgjandi að Ísland sé umsóknarríki en 42,5% því andvíg.

Samkvæmt þessu er minnihluti manna þeirrar skoðunar að Ísland eigi áfram að vera umsóknarríki. Ríkisstjórnin vill ekki ganga í Evrópusambandið. Meirihluti þingmanna vill ekki ganga í Evrópusambandið. Ekkert bendir til þess að meirihluti landsmanna vilji ganga í Evrópusambandið. Í umsókn um aðild að Evrópusambandinu felst hins vegar yfirlýsing um að land hafi ákveðið að ganga í Evrópusambandið.  

Það er ótrúleg frekja að krefjast þess að Ísland haldi áfram að vera umsóknarríki að Evrópusambandinu. 

Og þeir sem þess krefjast, þeir voru algerlega ófáanlegir til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort landið skyldi senda inn umsókn. Það væri hlutverk þjóðkjörins alþingis að taka þá ákvörðun.