Vefþjóðviljinn 105. tbl. 19. árg.
Í gær var sagt frá niðurstöðum rannsóknar á áhrifum sykurskattsins á sykurneyslu landsmanna.
Sykurskatturinn var eitt af því sem lagt var á, eftir valdatöku vinstriflokkanna. Með honum, eins og fleiru, átti að ala fólk upp. Valdhöfunum þótti landsmenn borða of mikinn sykur. Auðvitað sjá þeir ekkert athugavert við að ríkið reyni að skipta sér af því hversu mikið hver og einn fær sér af löglegum varningi.
Niðurstöður rannsóknarinnar koma kannski einhverjum á óvart. Samkvæmt þeim hafði sykurskatturinn nær engin merkjanleg áhrif á sykurneysluna. En tekjuaukning ríkisins af nam um milljarði króna.
En þótt áhrifin á sykurneysluna hafi ekki orðið nein, þá er ekki þar með sagt að engin áhrif hafi orðið af skattinum. Skattheimta ríkisins jókst um milljarð. Sá milljarður kom frá skattgreiðendum, sem þurftu þá að skera annað niður á móti. Enginn veit hvað það var, eins og svo oft þegar ríkið tekur verðmæti til sín.
Það er margt athugavert við það að ríkið beiti valdi sínu til að hafa áhrif á neyslu fólks á löglegum varningi. Frjáls maður ætti að mega taka eigin ákvarðanir um mat og drykk. Annað sem er ógeðfellt við að nota skatta til að stýra fólki frá einni vöru en til annarrar, er að slík skattheimta kemur sérstaklega harkalega við tekjulægstu neytendurna. Þótt lagður yrði á margfaldur sykurskattur þá myndi það ekki hindra efnamanninn í því að fá sér súkkulaði á hverjum degi. En láglaunamaðurinn, sem vildi gleðja sig og sína með kökubita, þyrfti fremur að neita sér um það.
Hvers vegna geta stjórnmálamenn ekki leyft fólki að taka eigin ákvarðanir?