Helgarsprokið 29. mars 2015

Vefþjóðviljinn 88. tbl. 19. árg.

Eins og flestir mega vita, var inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið fengin fram með stærstu svikum stjórnmálasögu samtímans. Fyrir kosningarnar 2009 fullvissuðu vinstrigrænir og Steingrímur J. Sigfússon kjósendur um að útilokað væri að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu ef Vinstrigrænir færu í ríkisstjórn, en lögðu svo til í þinginu strax eftir kosningar að Ísland sækti um aðild. Þá var ekki boðað til útifunda. Þá voru ekki samdar ályktarnir á skrifstofum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. 

Fyrir kosningarnar 2013 ályktaði Sjálfstæðisflokkurinn mjög skýrt að hann vildi afturkalla inngöngubeiðnina og að um það yrði ekki haldin sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla. Þetta ítrekaði Bjarni Benediktsson og tók fram að slík atkvæðagreiðsla kæmi aldrei til greina nema ESB-flokkarnir fengju meirihluta atkvæða í þingkosningunum. Það gekk auðvitað alls ekki eftir. Hins vegar gerðist það nokkrum sinnum fram að kosningum, að nokkrir frambjóðenda flokksins töluðu á annan hátt í sjónvarpsviðtölum, og afleiðingin varð sú að eftir kosningar varð flokkurinn að fara gegn öðru hvoru; skýrum og opinberum niðurstöðum landsfundar, eða einstökum setningum í sjónvarpsviðtölum við nokkra frambjóðendur. Auðvitað vegur landsfundur þar þyngra. Það er fullkomlega ósanngjarnt að saka flokkinn um svik, þegar hann nú fylgir þeirri skýru stefnu sem landsfundur ákvað opinberlega. Það væru mun meiri svik, ef menn létu eins og landsfundarsamþykktum væri breytt í sjónvarpsviðtölum.

En þeir eru til sem hrópa „svik, svik, svik“, í þeirri von að forysta Sjálfstæðisflokksins bugist og byrji að elta sjónvarpsummælin. Sömu menn höfðu hins vegar engar áhyggjur af raunverulegum svikum forystu Vinstrigrænna, sem sem fóru ekki aðeins gegn eigin orðum heldur einnig samþykktum eigin flokksfélaga. 

Einn þeirra sem þetta gera er rithöfundurinn Einar Kárason. Hann skrifaði grein í DV á dögunum þar sem sum stóryrðin bentu til að hann væri enn staddur á Sturlungaöldinni. Hann segir að „svik Bjarna Benediktssonar“ muni fylgja honum „ævina á enda“. Hann hafi nú fórnað mannorði sínu rækilega. Ekkert hafi þótt meira merki um óhreint hugarfar en að ganga á bak orða sinna.

Það er ekkert annað.

Það eru engin svik fólgin í því að flokkur geri það sem hann hefur ályktað um á landsfundi, sem sendur var út í beinni útsendingu, og taki það fram yfir einstök ummæli nokkurra frambjóðenda í sjónvarpsþáttum

En stjórnmálasagan geymir ýmis dæmi um stjórnmálamenn sem ganga á bak orða sinna, og það um mál sem þeir höfðu einir á valdi sínu, og þurftu ekki að semja um við aðra flokka. Fóru gegn loforðum, sem þeir höfðu í raun umboð til að gefa og hefðu getað staðið við án þess að fara gegn yfirlýstri stefnu eigin flokks.

Lítið dæmi var árið 2002. Þá um vorið voru borgarstjórnarkosningar og vinstrimenn buðu fram sem borgarstjóraefni Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hún var ítrekað spurð fyrir kosningar hvort hún væri að bjóðast til að verða borgarstjóri í fjögur ár til viðbótar, eða ætlaði sér kannski að fara í þingframboð næsta vor. Hún svaraði því skýrt. Hún ætlaði ekki í þingframboð. Hún yrði borgarstjóri nema hún hrykki upp af.

Strax um haustið tilkynnti hún að hún ætlaði í framboð til þings næsta vor. Þetta var gagnrýnt sem svik á skýru loforði.

Þá var hún svo heppin að maður nokkur kom til varnar. Dyggur stuðningsmaður skrifaði um málið í Morgunblaðið og sagði:

Ég tel augljóst að það hafi því verið leikflétta sjálfstæðismanna að þráspyrja borgarstjórann um þetta málefni fyrir kosningar, og gera svo svör hennar að meginmáli stjórnmálabaráttunnar að kosningum loknum…“ og bætti svo við að það væri ámælisvert af vinstrimönnum „að sjá ekki við klækjunum úr Valhöll og vaða blindandi í gildrurnar, – mála sig svo hryggilega út í horn að telja sig verða að afsala sér möguleika á stórum kosningasigri vegna einhverra loforða sem sjálfstæðismenn telja sig eiga heimtingu á að verði efnd.

Og hver var það nú sem taldi að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þyrfti ekki að standa við skýr loforð, sem einhverjir ómerkilegir menn teldu sig „eiga heimtingu á“ að yrðu efnd? Það væri ekkert að marka loforð sem gefin væru eftir að andstæðingarnir hefðu „þráspurt” um eitthvað.

Hann heitir auðvitað Einar Kárason.