Laugardagur 28. mars 2015

Vefþjóðviljinn 87. tbl. 19. árg.

Í fjórða sinn á þremur árum leggur vaskur hópur þingmanna fram þingsályktunartillögu um ríkisstuðning með skattaívilnun. Þessi skattaívilnun hefur hins vegar verið til staðar í lögum frá 2011.
Í fjórða sinn á þremur árum leggur vaskur hópur þingmanna fram þingsályktunartillögu um ríkisstuðning með skattaívilnun. Þessi skattaívilnun hefur hins vegar verið til staðar í lögum frá 2011.

Katrín Júlíusdóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar „um niðurfellingu gjalda á vistvænt eldsneyti sem er framleitt innan lands“. Þau lögðu tillöguna einnig fram á síðasta þingi.

Á síðasta kjörtímabili var þessi tillaga lögð fram af Magnúsi Orra Schram, Birgittu Jónsdóttur og fleirum í mars 2012 og aftur ári síðar en komst ekki á dagskrá þingsins.

Því miður er augljóst að Katrín Júlíusdóttir og félagar skilja ekki hvað þau eru að leggja fram. Svonefnt „vistvænt“ eða „endurnýjanlegt“ eldsneyti ber engin eldsneytisgjöld; ekki kolefnisgjald, ekki vörugöld sem lögð eru á bensín, ekki sérstakt vörugjald sem lagt er á bensín og ekki heldur olíugjald.

Þegar upphaflega tillagan var lögð fram af Magnúsi Orra og Birgittu árið 2012 var þegar búið að afnema þessi gjöld af „vistvæna“ eldsneytinu.

Alls hefur þessi þingsályktunartillaga, um að fella niður gjöld sem þegar höfðu verið felld niður, því verið lögð fram fjórum sinnum á þremur árum. Alls hafa 17 þingmenn lagt nafn sitt við tillöguna í þessi fjögur skipti.

Hafði enginn þeirra hugmynd um hvað hann var gera?