Mánudagur 30. mars 2015

Vefþjóðviljinn 89. tbl. 19. árg.

Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa lagt fram frumvarp sem lækkar refsirammann fyrir hefndarklám.
Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa lagt fram frumvarp sem lækkar refsirammann fyrir hefndarklám.

Í dag var sagt frá því í fréttum að maður nokkur hefði verið dæmdur í fangelsi fyrir að setja nektarmynd af fyrrverandi kærustu á facebook. Þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem menn eru dæmdir fyrir óleyfilega myndasýningu, því Hæstiréttur hefur áður dæmt mann í fangelsi fyrir að taka slíka mynd á símann sinn og sýna nokkrum öðrum mönnum myndina í símanum. 

Slíkt hefur lengi verið refsivert.

Engu að síður hefur Ríkisútvarpið bæði í fréttum og Kastljósi talað mörgum orðum um að Björt Ólafsdóttir og félagar í Bjartri framtíð hafi lagt fram frumvarp á þingi „til að gera hefndarklám refsivert“. Staðreyndin er sú að það sem þingmaðurinn kallar „hefndarklám“ er nú þegar refsivert, og það sem meira er, ef frumvarpið yrði samþykkt þá myndi refsiramminn lækka, því hámarksrefsingin samkvæmt frumvarpinu er mun lægri en núgildandi lög heimila.