Föstudagur 27. febrúar 2015

Vefþjóðviljinn 58. tbl. 10. árg.

Í gær var því velt upp hér hvort ekki lægi beint við að þeir þingmenn Framsóknarflokksins, sem óánægðir eru með vaxtakjör, gjaldskrá og fleira í rekstri Landsbankans, sem að mestu er í ríkiseigu, ríkiseigu, myndu leggja fram lagafrumvarp um málið. Enginn þeirra hefur gert það. Enginn þeirra hefur heldur beint áskorun til fjármálaráðherra um að hann sjái til þess að stjórnendur bankans lækki útlánsvexti, hækki innlánsvexti, breyti gjaldskrá eða geri eitthvað annað sem þingmennirnir telja brýnt að bankinn geri.

Um þetta er ýmislegt að segja fleira, og á þá ekki einungis við um þennan tiltekna banka.

Í fréttum Ríkisútvarpsins var í dag vakin athygli á því sérstök stofnun, Bankasýslan, færi með hlut ríkisins í Landsbankanum, til að hindra pólitísk afskipti af bankanum.

Þetta atriði er dæmi um misskilning sem breiðst hefur út á síðustu árum.

Auðvitað vill Vefþjóðviljinn ekki að Landsbankinn sé í ríkiseigu. Skattgreiðendur eigi ekki að reka banka. En á meðan svo er, þá er ekkert að því að kjörnir fulltrúar taki ákvarðanir um þessa eign ríkisins. Þingmenn eru að minnsta kosti kjörnir af kjósendum. Ráðherrar starfa í skjóli þingsins, eða ekki í vantrausti þess. Starfsmenn Bankasýslunnar bera enga pólitíska ábyrgð. Almennur Íslendingur, sem er óánægður með hvernig starfsmenn Bankasýslunnar fara með þessa eign ríkisins, getur ekki látið þá sæta pólitískri ábyrgð í kjörklefanum.

Ríki og sveitarfélög eiga að sýsla í sem allra fæstu. En þær ákvarðanir sem hið opinbera tekur, eru yfirleitt mun betur komnar í höndum kjörinna fulltrúa en embættismanna sem enginn kýs, nær enginn þekkir og bera enga ábyrgð gagnvart kjósendum.

Það er fráleitt að ríkið eigi banka, forsætisráðherrann og þingmenn lýsi mikilli óánægju með hvernig bankanum er stjórnað, en allar ákvarðanir um það séu hins vegar teknar af ókosnum mönnum.