Miðvikudagur 25. febrúar 2015

Vefþjóðviljinn 56. tbl. 19. árg.

Undanfarin ár hefur verið lagt fram frumvarp á þingi um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nú og í fyrra hefur einn þingmaður lagt frumvarpið fram, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir úr Samfylkingu. Að þessu sinni hefur Sigríður Ingibjörg gert eina breytingu á frumvarpinu, hún bætir inn ákvæði um að við fráfall ábyrgðarmanns námsláns falli niður þau lán sem hann hafi verið í ábyrgð fyrir. 

Hér er lögð til óeðlileg breyting á lögunum. Það er engin ástæða til að slíkar skuldbindingar manns falli niður við andlát hans, fremur en eignir hans. Ef erfingjar óska eftir að fá arf, þá erfa þeir eignir og skuldir. 

Þetta er grundvallaratriðið sem mestu skiptir. En ef menn vilja heyra fleiri röksemdir þá mætti benda á að það er ekki endilega fólki í hag að því sé gert erfiðara að gangast í ábyrgð fyrir aðra.

Það að gangast í ábyrgð fyrir skuldbindingu annars, getur verið þægilegasta leiðin sem maður hefur til þess að aðstoða annan. Þannig er hægt að rétta hjálparhönd án þess að það kosti nokkur fjárútlát, svo lengi sem skuldarinn stendur í skilum. Menn geta til dæmis ímyndað sér eldra fólk, sem á skuldlausa fasteign en lítið lausafé, en vill aðstoða barnabarn við háskólanámið. Með því að ábyrgjast lán sem barnabarnið tekur, getur eldra fólkið veitt því ómetanlega aðstoð, sem það annars gæti ekki nema með því að taka lán sjálft, eða selja fasteignina.

Hvað myndi sú regla þýða, að ábyrgð hyrfi við andlát ábyrgðarmannsins? Hún yrði vitaskuld til þess að mun færri gætu gengist í ábyrgð því lánveitendur hafa ekkert að gera við ábyrgð sem kann að vera orðin ógild þegar skuldin kemst í vanskil. Færri fá lán því þeir geta ekki útvegað tryggingu og eru ekki nógu áreiðanlegir lántakar í augum ókunnugra.

Regla um að ábyrgð hverfi við andlát ábyrgðarmanns verður þannig til þess að mjög margt fólk missir þennan möguleika til að aðstoða aðra. Þeir sem áður hefðu gerst ábyrgðarmenn, en vilja samt veita aðstoð, reyna þá aðrar leiðir. Taka kannski lán sjálfir eða selja íbúðina sína, og nota peningana til að styrkja námsmanninn.