Þriðjudagur 24. febrúar 2015

Vefþjóðviljinn 55. tbl. 19. árg.

Jafnvel þótt sífelldar fréttir af erfiðleikum í sjávarútvegi fyrir daga kvótakerfisins væru taldar með hljóta fréttir af aðilum vinnumarkaðarins að hreppa vinninginn þegar drepleiðinlegasta fréttaefni síðustu aldar verður loks valið?

Og ekki eru þær skárri á þessari. Nú er reyndar hægt að skipta yfir á FM957 þegar ríkisfréttamennirnir hefja lesturinn um víxlverkun launa og verðlags, krónutöluhækkunina, kröfugerðirna, verkfallsvopnið og hve allir eru sammála um mikilvægi þess að hækka lægstu launin. Lengst af síðustu öld var ekki mögulegt að skipta yfir á FM957 því öðrum en ríkisvaldinu var meinað að reka útvarpsstöð.

En hvernig er það annars hér í þjóðfélaginu sem samkeppniseftirlitið vakir yfir, rannsakar, ákærir og dæmir, er það alveg örugglega leyfilegt að mörg hundruð fyrirtæki annars vegar og mörg þúsund launamenn hins vegar bindist samtökum sem hafa þann tilgang helstan að hafa samráð um verð á vinnu? Og ríkið hafi sérstakan starfsmann, ríkissáttasemjara, sem kallar menn á næturfundi til að greiða fyrir samráðinu og innsigla það?

Og fréttatímar mánðum og misserum saman séu undirlagðir af því að svo og svo hægt miði að því að samráðið sé fullkomnað?