Mánudagur 23. febrúar 2015

Vefþjóðviljinn 54. tbl. 19. árg.

Stundum er sagt frá því í fréttum að einhver, sem óánægður er með niðurstöðu í dómsmáli, hafi ákveðið að „áfrýja til Mannréttindadómstóls Evrópu“. Einhverjir aðrir hafi hins vegar leitað til EFTA-dómstólsins til að fá lögum eða reglum hér á landi breytt.

Fjölmiðlamenn hampa mjög Mannréttindadómstól Evrópu. Dómarar dómstólsins dæma oft fjölmiðlamönnum í vil og minnkar þá ekki ánægja fjölmiðlamanna með dómstólinn. Þetta á alls ekki aðeins við á Íslandi heldur víðar. 

Vafalaust má margt gott um þessa dómstóla segja. En gildi þeirra hér á landi er alls ekki alltaf það sama og oft mætti halda af ákefð fjölmiðlamanna og álitsgjafa. Niðurstöður þessara dómstóla eru nefnilega alls ekki bindandi í íslenskum rétti. „Örlög verðtryggingarinnar“ ráðast til dæmis ekki fyrir þeim, heldur íslenskum stofnunum eins og Hæstarétti eða Alþingi.

Þannig var niðurstaða EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu auðvitað ágæt, en jafnvel þótt hún hefði orðið þveröfug hefði hún ekki skapað neina skyldu á hendur íslenska ríkinu. 

Þetta eru grundvallaratriði sem menn verða að hafa hugstæð. Þau geta skipt verulegu máli. Sem dæmi má taka að eftirlitsstofnun EFTA hefur gefið það út að bann íslenskra laga við gengistryggingu innlendra lána standist ekki EES-samninginn. Hvað myndu menn segja ef EFTA-dómstóllinn kæmist að sömu niðurstöðu? Myndu menn þá segja að gengislánin væru öll orðin gild? Nei, líklega myndu menn þá segja að EFTA-dómstóllinn réði ekki íslenskum lögum.

Þá myndu menn sennilega muna eftir því grundvallaratriði, sem menn gleyma hins vegar stundum þegar þeir eru sem ákafastir að fá niðurstöður frá Mannréttindadómstólnum eða EFTA-dómstólnum í öðrum málum.