Helgarsprokið 22. febrúar 2015

Vefþjóðviljinn 53. tbl. 19. árg.

Í gær var hér fjallað um baráttu þingmanns og formanns stjórnmálaflokks gegn því að lánsábyrgð látins manns færðist til erfingja hans með sama hætti og eignirnar. Þessa baráttu hefur þingmaðurinn háð meðal annars í fjölmiðlum. Eins og þá var tekið fram hyggjast þingmaðurinn og aðrir erfingjar áfrýja dómsmáli um þetta til hæstaréttar, svo endanleg niðurstaða þess liggur ekki fyrir.

Óháð þeirri deilu sem þingmaðurinn og skyldmenni hans eiga í við Lánasjóð íslenskra námsmanna, hefur á undanförnum árum aukist að fólk komi fram í fjölmiðlum og segist ekki vilja greiða skuldir sem einhver reynir að innheimta hjá því. Ekki af því að fólkið eigi ekki fyrir skuldunum og ekki af því að það hafi alls ekki stofnað til skuldanna, heldur vegna einhvers allt annars. Skilmálar hafi ekki verið réttir. Ekki hafi verið varað nægilega við öllum afleiðingum þegar skrifað var undir samningana. Og svo framvegis.

Nú getur vel verið að slíkar mótbárur séu í samræmi við lög, og engin ástæða er til að áfellast menn fyrir að fara að lögum. 

Það er hins vegar meiri spurning hvort löggjafinn ætti að hugsa sinn gang. Getur ekki verið að hann hafi gengið nokkuð langt í að takmarka samningafrelsi fólks? Getur ekki verið að hann líti allt of oft svo á að fullorðnu fólki sé ekki treystandi til að taka sjálft ákvarðanir um eigin mál? 

Eftir því sem þingmenn og embættismenn ganga lengra í að hugsa fyrir venjulegt fólk, grefur meira og meira um sig sú trú hjá fólki að ábyrgðin á velferð þess sé í raun ekki hjá því sjálfu heldur ríkinu. 

Þegar fólk venst því að ríkið skipti sér af stóru og smáu, fer fólk að búast við því að það, sem enn er leyft, hljóti þá að vera í lagi. Ríkið sé búið að fara yfir þetta. Ríkið hafi eftirlit með þessu. Þetta væri ekki leyft nema þetta væri samkvæmt stöðlum.

Við slíkar aðstæður minnkar ávekni hins almenna manns. Þarf ég að lesa skilmálana? Er ríkið ekki búið að því? Hvernig stendur á því að ég er búinn að safna þessum skuldum með smálánunum? Getur þetta verið löglegt? Má bjóða upp á svona háa vexti? Er þetta flýtigjald ekki ólöglegt? Ég datt illa hérna við sundlaugina, var einhvers staðar skilti sem varaði mig við því að þar væri hált? Hver ber ábyrgð á því?

Hluti af því að vera frjáls maður er að mega taka eigin ákvarðanir um eigin mál. Enn er mönnum leyft að taka margar þær stærstu í eigin lífi. Ríkið velur ekki saman pör eða ákveður að þessi skuli læra verkfræði en hinn smíðar. En ríkið ákveður hins vegar hvaða vexti þeir mega semja um, ef annar lánar hinum peninga. 

Forræðishyggjumenn leggja sífellt meira undir vald ríkisins og að sama skapi smækkar einstaklingurinn. Einn daginn er veitingahúsaeigendum bannað að leyfa gestum sínum að njóta tóbaks. Þann næsta er hjólreiðamönnum skipað að vera með hjálm. Svo er bannað að taka smálán. Þeir sem eiga fyrirtæki verða að velja stjórnarmenn af báðum kynjum. Einn maður vill láta byggja fyrir sig hús og annar vill byggja það fyrir hann. Þeir mega ekki semja sjálfir um hvernig húsið á að vera. Búið er að segja smásmugulegar byggingarreglugerðir sem taka völdin af þeim tveimur á ótal sviðum, fyrir utan að auka byggingarkostnað töluvert. Sífellt er verið að hafa vit fyrir fólki. Menn gátu ekki einu sinni þegið „leiðréttingu“ fasteignalána nema fá sér rafræn skilríki, þótt engin nauðsyn væri á slíku. Menn bara gripu tækifærið til að ala landsmenn upp. Rafræn skilríki eru víst framtíðin.

Það þarf að vinda ofan af forræðishyggjunni. Stjórnmálamenn og embættismenn eiga að treysta fólki til að taka ákvarðanir í eigin málum. Auðvitað munu allir af og til taka ákvarðanir sem einhverjum öðrum finnast óskynsamlegar. Borða óhollan mat. Fá sér vínglas. Neyta tóbaks. Hlusta á þungarokk. Hætta í sálfræðinni. Fá sér tattú. Giftast Lalla lúser. Hlusta á Rás 2. Hjóla án hjálms. Fara í gleðigönguna. Fara ekki í gleðigönguna.  Byggja sér þriggja hæða hús án lyftu. Taka smálán. Velja bara konur í stjórn fyrirtækisins síns. Reka fyrirtæki án þess að gera jafnréttisáætlun. Leggja ekki fyrir. Borða aldrei grænmeti.

Þannig má telja næstum endalaust. Sá sem tekur einhverja slíka ákvörðun getur verið viss um að fjölmargir teldu hana vera mikil mistök. En í því að mega sjálfur taka slíkar ákvarðanir, og næstum óendanlega margar aðrar sem ekki eiga að koma öðrum við, eru fólgin mörg grundvallaratriðin í því að vera frjáls maður.