Laugardagur 14. febrúar 2015

Vefþjóðviljinn 45. tbl. 19. árg.

Þær eru ýmsar leiðirnar til að fara sér að voða í fjármálum. Ekki er víst að þótt það sé gerlegt að banna þær sé það skynsamlegt.
Þær eru ýmsar leiðirnar til að fara sér að voða í fjármálum. Ekki er víst að þótt það sé gerlegt að banna þær sé það skynsamlegt.

Áhugi stjórnmálamanna og fréttamanna á smálánafyrirtækjum virðist engan enda taka. Nýlega lagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins smálánafyrirtæki og fíkniefnasala að jöfnu og virtist telja að báðir læstu klónum í fólk sem eftir það þyrfti ekki að kemba hærurnar.

Smálánafyrirtæki bjóða mönnum „smálán“, eftir skilmálum sem eru einfaldir og skýrir. Menn fá þessa fjárhæð að láni og eiga að borga þessa fjárhæð eftir þennan tíma. Þeir sem taka lánið hafa sínar ástæður fyrir því. Oft eru menn sjálfsagt í vandræðum sem þeir vonast til að líði hjá, eða vandræðum sem þeir telja litla von að leysist en vilja samt frá gálgafrest, en hvað sem því líður ákveða þeir að taka lánið fremur en að taka það ekki.

Hvað gerist ef menn eiga ekki fyrir láninu þegar að gjalddaga kemur? Þá reynir lánveitandinn að innheimta það. Ef lántakinn er í slíkum vandræðum að hann á ekkert til að borga skuldina með, þá fær lánveitandinn ekkert. Auðvitað getur hann gert árangurslaust fjárnám og jafnvel farið fram á gjaldþrotaskipti viðskiptavinarins, þótt slíkt hefði í för með sér mikinn kostnað fyrir hann sjálfan en engar greiðslur, ef viðskiptavinurinn á ekki neitt. 

Auðvitað eru einhverjir sem standa uppi peningalitlir eftir ítrekaðar lántökur hjá smálánafyrirtækjum. En það verður ekki til þess að ríkið eigi að banna fullorðnu fólki að taka lán og samþykkja þau vaxtakjör sem einhver býður. Fólk á í sem allra flestum tilfellum að fá að ráða málum sínum sjálft. Fullorðið fjárráða fólk á að fá að taka eigin ákvarðanir á eigin ábyrgð, enda er það stór hluti þess að vera frjáls maður. Ef fjárráða maður vill kaupa lottómiða í hundraðavís og vera áskrifandi að öllum happdrættum, borða ofurfæðu og undrakrem en kaupa orkusteina fyrir afganginn þá hann að mega það. Ef hann telur hagstæðara að taka lán á háum skammtímavöxtum, en að taka það ekki, þá á hann að ráða því. Svo lengi sem blekkingum er ekki beitt og staðið er við gerða samninga, þá eiga aðrir að virða manninn þess að leyfa honum að taka þær ákvarðanir.

Sagt er að fíkniefnasalar beiti oft ofbeldisfullum innheimtuaðgerðum, ef aðrar bera ekki árangur. Ein ástæða þess er vafalaust sú að viðskipti með fíkniefni eru ólögleg og því standa hefðbundnar innheimtuleiðir ekki til boða. Þótt viðskiptin séu gerð ólögleg þá hverfa þau ekki. En umhverfið verður allt harkalegra.