Föstudagur 13. febrúar 2015

Vefþjóðviljinn 44. tbl. 19. árg.

Leiðin til andnauðar er vörðuð góðum fyrirætlunum. Brown og Steingrímur vildu ekki aðeins að skattgreiðendur greiddu Icesave skuldir einkabanka heldur einnig að almenningur keypti sótmengandi Dieselbíla. Nú viðurkenna talsmenn breska Verkamannaflokksins að Dieseldekrið hafi verið hrein og klár mistök.
Leiðin til andnauðar er vörðuð góðum fyrirætlunum. Brown og Steingrímur vildu ekki aðeins að skattgreiðendur greiddu Icesave skuldir einkabanka heldur einnig að almenningur keypti sótmengandi Dieselbíla. Nú viðurkenna talsmenn breska Verkamannaflokksins að Dieseldekrið hafi verið hrein og klár mistök.

Hér munu menn seint þreytast á því að rifja upp heimskupör vinstri stjórnarinnar í eldsneytismálum.

Meðal þess sem vinstri stjórnin ákvað var að ýta undir noktun Dieselolíu á kostnað bensíns á einkabíla.

Þetta er svo sem ekki einsdæmi. Margar ríkisstjórnir í Evrópu höfðu fallið í þessa gryfju áður en Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ákvað að stinga sér á eftir þeim.

Í Bretlandi hefur Dieselbílum til að mynda fjölgað úr 1,6 milljónum bíla í 11 milljónir á áratug.

Barry Gardiner er skuggaráðherra umhverfismála fyrir breska Verkamannaflokkinn, flokkinn sem tók þá stefnu í fjármálaráðherratíð Íslandsvinarins Gordon Brown árið 1998 að hygla kaupendum Dieselbíla með sköttum.

Í viðtali í þættinum Dispatches á BBC Channel 4 sagði Gardiner 

Ég viðurkenni það fúslega. Það er nákvæmlega enginn vafi á því að sú ákvörðun sem við tókum var röng. Á þeim tíma höfðum við ekki þær upplýsingar sem síðar komu fram. Nýjar og síður mengandi Dieselvélar voru þá komnar fram og við gerðum ráð fyrir að hugsanleg vandamál vegna þeirra væru síður mikilvæg en að draga úr útblæstri CO2.

En árið 2010 þegar íslenska vinstri stjórnin tók þá ákvörðun að ýta undir notkun Dieselbíla var enginn skortur á upplýsingum um að sótmengunin frá þeim væri margföld á við bensínbíla.

Gordon Brown og breski Verkamannaflokkurinn geta kannski borið fávisku fyrir sig en hver er ástæðan fyrir því að Steingrímur og íslenska vinstri stjórnin fóru þessa leið árið 2010?

Og hver er ástæðan fyrir því að ný ríkisstjórn lætur árin líða án þess að hnika í nokkru helstu afglöpum vinstri flokkanna?