Vefþjóðviljinn 46.tbl. 19. árg.
Væntanlega hefur fleirum en sakborningum brugðið við við þungan dóm hæstaréttar yfir fjórum fyrrum forsvarsmönnum Kaupþings. Þeir voru dæmdir í samtals 18 ára fangelsi fyrir verknað sem framinn var rúmum tveimur vikum fyrirfall bankans.
Þó var ekki þyngra í sumum fjölmiðlamönnum en svo að þeir fóru að velta sér upp úr því hvar hinir sakfelldu myndu afplána, hve stórt sjónvarp væri í fangaklefum og hve nákvæma læknisskoðun þeir þyrftu að undirgangast. Slík framkoma lýsir skilningsleysi á aðstæðum aðstandenda þeirra sem bíður margra ára frelsissvipting og fjarvistir frá fjölskyldum sínum.
En að þeim ályktunum sem draga má af þessum dómi.
Hér eru menn dæmdir í samtals 18 ára fangelsi fyrir gjörning í viðskiptalífinu rétt fyrir bankahrunið.
En hvernig má það vera? Var ekki búið að segja fólki að hér hefðu ekki verið neinar reglur fyrir hrun? Jú það var í fyrstu talin helsta ástæða bankahrunsins að allar reglur hefðu verið afnumdar. Svo langt gekk þessi umræða að Andríki lét eftir sér að birta heilsíðuauglýsingar í blöðum þar sem nöfn þeirra laga og reglna sem í gildi voru um fjármálamarkaði fyrir hrunið voru tíunduð, og þurfti að hafa það með örsmáu letri til að koma því öllu fyrir. Sjálfar reglurnar eru á þúsundum blaðsíðna.
Og nú er verið að dæma menn til langrar fangelsisvistar eftir þeim reglum sem í gildi voru fyrir hrunið.
Sannleikurinn er auðvitað sá að nóg var af reglum og eftirliti með fjármálamörkuðunum fyrir hrun. Líkega hefur engin atvinnugrein í veraldarsögunni búið við jafn mikinn reglugerðastabba og fjármálamarkaðir Vesturlanda. Það er því miklu áhugaverðari spurning hvort allt þetta regluverk, opinbera eftirlit og annað ábyrgðarleysiskerfi eins og lögbundir innstæðutryggingasjóðir og beinar og óbeinar stuðningsyfirlýsingar ríkisvaldsins við fjármálafyrirtækin hafi gert viðskiptavini fjármálafyrirtækja andvaralausa.
Hvergi hefur verið gerð betri grein fyrir þessu á íslensku en í bókinni Ábyrgðarkveri eftir Gunnlaug Jónsson sem kom út fyrir þremur árum. Um bókina sagði Vefþjóðviljinn meðal annars: Greiningin Gunnlaugs á reglum um fjármálastarfsemi og skýr framsetning hljóta að marka ákveðin skil í umræðunni um þau mál. Enginn sanngjarn maður getur haldið því fram að slakað hafi verið á reglum eða eftirliti eftir að hafa séð sögulegt yfirlit löggjafar um fjármálastarfsemi í viðauka bókarinnar. Þær upplýsingar sem þar koma fram á svo kláran hátt geta vart verið annað en sláandi fyrir þá sem galað hafa „hér voru engar reglur.“
Eða eins og Gunnlaugur orðar það sjálfur í bókinni:
Hið mikla reglugerðabákn virkar almennt eins og hringamyndun þar sem með því eru reistar hömlur við að ný fjármálafyrirtæki geti hafið rekstur og viðskiptavinir þeirra fært viðskipti sín. Þannig minnkar samkeppni og fjölbreytni. Samkeppni er ekki aðeins nauðsynleg til að hvetja banka til að vinna í þágu neytenda, heldur felur samkeppnin í sér tilraunastarfsemi sem er stöðvuð með einu samræmdu regluverki. Einn aðili, ríkið, telur sig vita betur en allir aðrir. Fólk hefur hins vegar misjafnar hugmyndir um áhættu og hvaða þjónustu bankar eigi að veita. Fólk verður að fá að leita sjálft sannleikans í þessum efnum. Ef kröfur ríkisins verða færri verða kröfur þær sem gerðar verða til bankanna fjölbreyttari. Það er mikilvægt að leyfa ólíkum hugmyndum um áhættu og reglur að njóta sín. Þess vegna þurfa reglurnar að koma frá neytendum, án þess að ríkið beiti valdi sínu. Er hægt að meta hvort reglur eru góðar á skilvirkan hátt ef allir fara eftir sömu reglum?
Afskipti og tilskipanir ríkisins slæva ekki aðeins ábyrgðartilfinningu bankamanna og viðskiptavina þeirra. Ný fyrirtæki eiga erfitt með að brjótast í gegnum reglugerðafrumskóginn. Reglurnar sem sagðar eru vernda litlu viðskiptavini fjármálafyrirtækjanna eru í raun til verndar stóru fjármálafyrirtækjunum sjálfum.
Ábyrgðarkver fæst á kr. 1.990 í Bóksölu Andríkis. Heimsending innanlands er innifalin í verðinu.