Miðvikudagur 14. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 14. tbl. 19. árg.

Eitt af því sem þeir fá stundum að heyra, sem vekja athygli á slæmu ástandi mála á einum stað, að þeir séu ekki trúverðugir því þeir láti nefni aldrei eitthvað tiltekið en jafn slæmt ástand annars staðar. Slíkar athugasemdir geta verið réttmætar og vakið athygli á hræsni, og þær geta líka verið hrein ósvífni og ætlaðar til að draga mátt úr gagnrýni sem menn vilja ekki að heyrist.

Hvort ætli eigi betur við um orð Árna Matthíassonar blaðamanns í pistli sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag? Þar segir hann meðal annars:

Gott og vel, tökum umræðuna og byrjum kannski á því að ræða hvers vegna þeir sem hæst hrópa um ógnir íslams hafa bara áhyggjur af mannréttindum kvenna í múslímaríkjum, en dunda sér annars iðulega við að gera lítið úr íslenskum konum fyrir að krefjast jafnréttis.

Ætli verið geti að blaðamaðurinn telji að staða kvenna í „múslímaríkjum“ sé að miklu leyti sambærileg við stöðu kvenna á Íslandi? Að þeir, sem lýsi áhyggjum af stöðu kvenna í „múslímaríkjum“ hljóti að hafa sömu áhyggjur á Íslandi, en séu að öðrum kosti hræsnarar og ómerkingar? Getur það hreinlega verið?

Á einum stað fá konur ekki að kjósa. Þær fá ekki að aka bíl. Framburður þeirra gildir minna en framburður karla fyrir dómi. Sé þeim nauðgað kann þeim að verða refsað grimmilega fyrir „kynlíf utan hjónabands“. Þær eru skyldaðar til ákveðins klæðnaðar utan heimilis. Brjálæðið hefur gengið svo langt að þær hafi verið hindraðar í að bjarga lífi sínu í eldsvoða, séu þær ekki í réttum fötum. Á síðasta ári lést ein þegar karlkyns sjúkraflutningamönnum var bannað að hjálpa henni eftir að hún hafði fengið hjartaáfall.

En svo eru einhverjir menn slíkir hræsnarar að þeir lýsa andúð á þessari meðferð á konum, en eru á sama tíma á móti kynjakvótum í stjórnum íslenskra einkafyrirtækja. Ef þeir vilja ekki beita opinberu valdi til að breyta kynjahlutfalli í stjórnum einkafyrirtækja, þá ættu þeir nú ekki að vera að hrópa hátt um eitthvað ástand annars staðar. Meiri hræsnaranir.