Þriðjudagur 13. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 13. tbl. 19. árg.

Ekki eru allir skipulagsfræðingar þeirrar skoðunar að þétting byggðar muni ein og sér útrýma einkabílnum.
Ekki eru allir skipulagsfræðingar þeirrar skoðunar að þétting byggðar muni ein og sér útrýma einkabílnum.

Þétting byggðar er mikil töfralausn á teikniborðum margra áhuga- og atvinnumanna í skipulagsmálum. Þannig virðist oft gengið út frá því sem vísu að ef íbúum er fjölgað um segjum 25% á ákveðnu svæði hljóti bílaumferð að minnka.

Þetta er auðvitað ekkert lögmál. Hvers vegna ætti maður að henda frá sér bílnum þótt byggðar séu tvær blokkir til viðbótar í hverfinu hans? Jú, jú, kannski sér nú einhver færi á að opna blómabúð í hverfinu eftir að fjölgaði í því og maðurinn labbar jafnvel þangað eftir vendi tvisvar á ári. En flest erindi sín rekur maðurinn áfram á bíl, sækir vinnu, skutlar krökkunum á karateæfingu, sækir skrúfur og tappa í byggingavöruverslun og tengdó í kvöldmat, ferðast um landið í fríum.

Eins og staðan er nú er langlíklegast að þéttingu byggðar fylgi aukin bílaumferð í því hverfi. Líklega eykst hún um nálægt fjórðung við 25% íbúafjölgun.

Í desemberblaði Vesturbæjarblaðsins segir Bjarni Reynarsson skipulagsfræðingur að

mikilli þéttingu byggðar fylgi ýmis vandamál einkum umferðarvandamál þar sem núverandi umferðarmannvirki muni ekki bera þá auknu umferð sem fylgi svo mikilli þéttingu byggðar og fólksfjölgun.

Bjarni bætir svo við:

Í vesturbæ Reykjavíkur séu nú þegar vandamál tengd umferð og tekur Hringbrautina og Suðurgötuna sem dæmi um umferðræðar sem erfitt er að skerða en einnig nauðsynlegt að gangandi fólk komist yfir. Á því þurfi að finna lausnir án þess að þrengja um of að umferðinni. Þá sé heilt sveitarfélag með um nærri 4.400 íbúum vestan Vesturbæjarins sem ekki eigi aðra útgönguleið á landi en í gegnum Vesturbæinn. Menn verði að fara sér hægt að þessu leyti því þótt einhverjum finnist gott að losna við bílaumferðina sé sá kostur ekki í boði.

Bjarni bendir einnig á að nauðsynlegt sé að huga betur að atvinnurekstri í austurhluta borgarinnar til að dreifa álaginu á sömgönguæðarnar. Þetta er hárrétt athugað.

Í þessu samhengi má til að mynda velta því fyrir sér hvers vegna Háskólinn í Reykjavík var reistur nánast við hliðina á Háskóla Íslands í vesturborginni en ekki á Keldum eða í Garðabæ. Sömuleiðis virðist aldrei koma annað til álita en að nýtt sjúkrahús rísi í vestri. Ákvarðanir um bæði háskólann og spítalann hafa þó verið teknar af þeim sem mestar áhyggjur hafa af bílaumferð og tala mest um þéttinguna. Það væri sjálfsagt lítið mál að reikna út hve miklu nær spítalanum meðal höfuðborgarbúinn væri ef hann yrði reistur í Fossvogi í stað núverandi staðsetningar og þar með hve umferð myndi minnka mikið.