Fimmtudagur 15. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 15. tbl. 19. árg.

Íslendingar greiddu 700 milljónir króna aukalega fyrir 10 þúsund tonn af lífolíum á síðasta ári.
Íslendingar greiddu 700 milljónir króna aukalega fyrir 10 þúsund tonn af lífolíum á síðasta ári.

Margt af því sem sagt er og jafnvel gert er nú til dags er gert með vísan til þess að draga þurfi úr útblæstri koltvísýrings (CO2). Stóru rökin í nýlegri umræðu um rafbílavæðingu voru til að mynda þess eðlis. Sömuleiðis í „vetnisvæðingunni“ um árið, sem fór út um þúfur eftir óheyrilegan kostnað skattgreiðenda.

Haraldur Sveinbjörnsson verkfræðingur skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann bendir á að líklega sé best að bíða með stórkostlegar áætlanir um að að kaupa rafbíla til landsins þar til þeir verði á viðráðanlegu verði og samkeppnishæfir við aðra bíla að öðru leyti. Haraldur segir Íslendinga ekki hafa efni á því að niðurgreiða hvern rafbíl um milljónir króna líkt og Norðmenn hafi gert.

Svo skrifar Haraldur:

Ef raunverulegur áhugi er fyrir því að draga úr CO2-mengun bendi ég á að 2009 kom út skýrsla hjá umhverfisráðuneytinu um hvernig draga mætti úr CO2-mengun og skoðaðir 38 möguleikar. Rafbílavæðing var sú þriðja kostnaðarsamasta á eftir vetnisbílum og léttlestakerfi. Það sýnir ef til vill hugsunarhátt okkar Íslendinga að þessar þrjár dýrustu aðgerðir (kostnaður á CO2-tonn) hafa vakið mestan áhuga pólitíkusa, blaðamanna og náttúruverndarsinna.

Já auðvitað vilja íslenskir stjórnmálamenn ekkert annað en það dýrasta. Í þessari skýrslu umhverfisráðuneytisins var kostnaður við blöndun lífolíu í Dieselolíu raunar stórlega vanmetinn miðað við þau ósköp sem Íslendingar hafa þurft að þola vegna innflutnings á lífolíum undanfarið ár. Líklega er kostnaðurinn á hvert tonn CO2  ekki nokkur þúsund krónur heldur nokkrir tugir þúsunda króna.

Þannig að líklega hafa þeir náð að tryggja landsmönnum dýrasta kostinn og minnsta ávinninginn enda er vetnisstrætóinn kominn á safn austur í sveitir og léttlestin hefur ekki enn létt á pyngju skattborgarans.