Fimmtudagur 1. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 1. tbl. 19. árg.

Ákvörðun Framsóknarmanna í janúar 2009 setti Íslendinga undir fjögurra ára stjórn VG og Samfylkingar. Formaður Framsóknarflokksins telur nú að þetta hafi ekki verið jafn vænlegur kostur vegna þess sem á eftir fylgdi.
Ákvörðun Framsóknarmanna í janúar 2009 setti Íslendinga undir fjögurra ára stjórn VG og Samfylkingar. Formaður Framsóknarflokksins telur nú að þetta hafi ekki verið jafn vænlegur kostur vegna þess sem á eftir fylgdi.

Í Áramótum, áramótariti Viðskiptablaðsins, fróðlegt viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Ráðherrann er meðal annars spurður um þá afdrifaríku ákvörðun hans og Framsóknarflokksins að styðja minnihlutastjórn VG og Samfylkingar til valda í lok janúar 2009 og hvort hann sjái eftir henni.

Ef maður færi aftur í tímann og vissi að þessir tveir flokkar myndu svíkja þau fyrirheit sem þeir gáfu, þá væri þetta augljóslega ekki eins vænlegur kostur. Við mátum það á þessum tíma að í þessu ófremdarástandi sem ríkti á þessum tíma væru mjög stór tækifæri og að mjög mikilvægt væri að einhver myndi grípa þau. Það skipti í raun ekki máli hver það væri.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var lömuð og gat ekki gert það sem við töldum að þyrfti að gera. Hvað minnihlutastjórnina varðar taldi ég t.d. kost að hafa Vinstri græna í stjórninni því að minnsta kosti myndu þeir standa í lappirnar í Icesave-málinu. Aldrei datt mér í hug að þeir myndu snúast svona hrapalega í því máli eins og raun bar svo vitni.

Vinstri sinnaðir álitsgjafar og stjórnmálamenn hafa lagt mikið kapp á að menn viðurkenni mistök, þótt þeir geri það ekki sjálfir eins og Icesave málið er gróft dæmi um. Þeir hljóta því að fagna þeim orðum forsætisráðherra að í ljósi þess sem fylgdi í kjölfarið hafi það augljóslega ekki verið eins vænlegur kostur að styðja vinstri flokkana til valda í janúar 2009.