Föstudagur 2. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 2. tbl. 19. árg.

Þegar á allt er litið er engu logið um að bókabærinn er klasasamstarf, landkynning og margfeldisáhrif.
Þegar á allt er litið er engu logið um að bókabærinn er klasasamstarf, landkynning og margfeldisáhrif.

Útsvarsgreiðendur í Ölfusi og á Selfossi virðast hafa meira en nóg milli handanna. Að minnsta kosti ákváðu stjórnendur þessara tveggja sveitarfélaga á dögunum að ráða starfsmann í hálft starf til að „vinna áfram að verkefninu um Bókabæina austan fjalls“. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að „Bókabæirnir austanfjalls eru klasasamstarf nokkurra aðila sem stefna að aðild að alþjóðasamtökum bókabæja“.

Þetta er mjög skemmtilegt verkefni og flott framtak hjá þessum aðilum í klasasamstarfinu. En hvers vegna taka þeir aðilar ekki að sér að borga kostnaðinn? Hvers vegna eiga útsvarsgreiðendur í Árborg og Ölfusi að ráða starfsmann til að sinna því áhugamáli þessara manna sem „stefna að aðild að alþjóðasamtökum bókabæja“?

Þetta er ekki stórt mál í sjálfu sér. En það er áminning um það að opinber útgjöld þenjast jafnt og þétt út, og það er áminning um ástæðu þess. Það eru nokkrir aðilar sem vilja komast í alþjóðasamtök bókabæja. Forsvarsmenn þessara aðila fá fund með bæjarstjóra. Þeir hringja í bæjarfulltrúa. Þetta er þeirra hjartans mál. Bæjarstjórar og bæjarfulltrúar vita að þetta er mikið mál í huga þessara manna. Þeir vita líka að það er ekki hjartans mál neins að stöðva nákvæmlega þessi útgjöld. Kostnaðurinn á hvern bæjarbúa verður ekki mikill. Almennir íbúar munu ekki mynda samtök gegn málinu. Ef einhver mun spyrja eftir fjögur ár hvers vegna útsvar hafi ekki verið lækkað, þá munu bæjarfulltrúar geta sagt eins og alltaf að það hafi ekki verið hægt, og enginn mun þá fara að tala um Bókabæina. Og jafnvel ef svo ólíklega vill til að einhver nefni kostnaðinn við Bókabæina má alltaf svara með órökstuddu tali um að óbeinn ávinningur af átakinu sé miklu meiri, á alls kyns sviðum og miklum margfeldisáhrifum.

Opinber útgjöld þenjast út. Ótrúlega margir bera eitthvert málefni fyrir brjósti og herja á stjórnmálamenn. Það þarf að styrkja íþróttafélagið til keppnisferða. Myndlistarfélagið þarf styrk til að setja upp sýningu. Á karlakórinn ekki að komast á norræna mótið í Osló? Starfsmaður í hálft starf fyrir Bókabæina er nú ekki mikið, þegar horft er á það hvað búið er að gera fyrir íþróttamenn. Við megum ekki gleyma menningunni.