Miðvikudagur 31. desember 2014

Vefþjóðviljinn 365. tbl. 18. árg.

Á R A M Ó T A Ú T G Á F A

Í tilefni dagsins hefur Vefþjóðviljinn tekið saman þau atriði líðandi árs sem ekki ættu að fylgja því inn í eilífðar skaut.

Holuhraun 2014.
Holuhraun 2014.

Púströr ársins: Á nokkrum vikum spúði Holuhraun frá sér álíka miklu brennisteinsgasi og íslenski bílaflotinn gerir á milljón árum. Það tæki bílaflota Vesturlanda nokkrar aldir að jafna brennisteinsútblásturinn á fyrstu vikum gossins.

Útivallarleikmaður ársins: Gunnar Bragi Sveinsson kom á lýðræði í Úkraínu, efndi til alþjóðlegs átaks Íslands og Súrínams gegn ofbeldi gegn konum, og hugleiðir nú samskonar átak með Maldíveyjum gegn ofbeldi gegn sköllóttum.

Heimavallarleikmaður ársins: Gunnar Bragi Sveinsson er enn utanríkisráðherra umsóknarríkis í Evrópusambandið og hefur auðvitað ekki haft tíma undanfarið til að breyta því. Það þarf að forgangsraða.

Gildismat ársins: Ekki er hægt að hafa það eftir, en það mátti nota það um Egil Einarsson, því Gillzenegger var svakalega dónalegur við allt annað fólk nokkrum árum áður.

Hamskipti ársins: Stjórn Ríkisútvarpsins, sem á að vera fulltrúi Alþingis gagnvart Ríkisútvarpinu, breytti sér í talsmann starfsmanna Ríkisútvarpsins gegn Alþingi.

Umburðarlyndi ársins: Víðsýnir foreldrar tóku ekki í mál að börnin þeirra færu eina ferð í kirkju með skólanum fyrir jólin.

Frekjuhundar ársins: Guðmundur Andri Thorsson skrifaði að Ríkisútvarpið byggi við „stöðugar árásir frá frekjuhundum“, en það voru þeir sem vildu takmarka aukningu skattfjár til Ríkisútvarpsins.

Blóðslóð ársins: Pétur Gunnarsson sagði í viðtali að Ríkisútvarpið væri „eins og sært dýr“ og „úlfarnir“ hefðu „runnið á blóðslóðina“ og ætluðu að „rýra, skerða og þrengja enn frekar“ að Ríkisútvarpinu. Á sama tíma voru baráttuglaðir stjórnarþingmenn að auka framlögin til Ríkisútvarpsins um hundruð milljóna.

Stjórnmálamaður ársins: Skammtíma-dómsmálaráðherra sýndi að hann var ráðherra en ekki embættismaður þegar hann ákvað að lögreglan á Hornafirði myndi áfram heyra undir Austurland, öfugt við það sem embættismenn vildu.

Skilyrði ársins: Enginn fær „leiðréttingu“ fasteignalána nema hann fari fyrst í krabbameinsleit, láti mæla kólesterólið og fái sér rafræn skilríki. Embættismenn þurfa að ala landsmenn upp.

Þjóðnýting ársins: Leiðréttingin.

Stuðningsmaður ársins: Í júlí skrifaði Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri leiðara í Fréttablaðið til stuðnings frumvarpi um afnám einkaleyfis ríkisins til reksturs áfengisverslana.

Andstæðingur ársins: Í nóvember sendi Ólafur Þ. Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda harðorða umsögn til Alþingis gegn frumvarpi um afnám einkaleyfis ríkisins til reksturs áfengisverslana.

Siðameistarar ársins: Efnt var til mótmælafundar þar sem þess var krafist að ríkisstjórnin sýndi minni hroka og dónaskap.

Fyrirmynd ársins: Til að sýna hvernig menn ættu að haga sér af auðmýkt sagði forsvarsmaður mótmælenda, Svavar Knútur Kristinsson, í skrifaðri ræðu sinni, að sér liði „svolítið eins og ríkisstjórnin sé eins og þessi gaur sem kemur í partý og skítur á gólfið hjá þér og þegar þú bendir honum á að þetta sé ekki beinlínis í lagi þá ælir hann ofan á skítinn og segir svo ég sé engan skít.“

Einföldun ársins: Í upphafi árs voru virðisaukaskattþrepin tvö og tekjuskattþrepin þrjú.

Hagræðari ársins: Forstjóri Jafnréttisstofu missti áhugann á því að færa stofnunina í nýtt húsnæði, þar sem húsaleigan hefði verið mun lægri en nú er, þegar hún komst að því að sparnaðurinn yrði látinn renna í ríkissjóð en ekki til að auka framlög til Jafnréttisstofu.

Ógn ársins: Garðar Cortes sagði í útvarpsviðtali að mikil hætta væri á ferðum. Það stefndi í „alveg skelfilega hluti.“ Hann var ekki að tala um læknaverkfallið, útbreiðslu Ebólu eða næsta leik Liverpool, heldur það að tvær vikur voru í að tónlistarskólakennarar hæfu verkfall.

Þröngsjá ársins: Víðsjá.

Borgarstjórnarframbjóðandi ársins: Guðni Ágústsson.

Andóf ársins: Þegar fréttist af væntanlegu framboði Guðna Ágústssonar og að það væri líklegt til að spilla möguleikum Samfylkingarinnar hófust ákafar árásir á Guðna. Maður sem hefði sagt svo marga dónalega brandara á þorrablótum mætti ekki setjast í borgarstjórn.

Brandarakarlar ársins: Þeir sem voru hneykslaðir á þorrablótsbröndurum Guðna, munu ekki telja eitthvert grín úr Tvíhöfða eiga að koma í veg fyrir að Jón Gnarr verði forseti.

Persónufylgi ársins: Í upphafi árs var Samfylkingin í borginni með 17% fylgi. Þegar efstu menn hinna flokkanna birtust, varð til „persónufylgi Dags Eggertssonar“.

Valdaafsal ársins: Innanríkisráðuneytið ákvað að færa völdin í útlendingamálum frá ráðuneytinu til nefndar þar sem „mannréttindasamtök“ fara með meirihlutann. Áður hafði ráðuneytið ákveðið að fela stjórnarandstöðunni forystu um það hvort og hvaða breytingar ætti að gera á útlendingalögum.

Viðurkenning ársins: Yoko Ono, nýútnefndur heiðursborgari Reykjavíkur, ákvað að Jón Gnarr fengi verðlaun sem hún kennir við John Lennon.

Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.

Umskipti ársins: Ríkisútvarpinu hefur verið gerbreytt. „Samfélagið í nærmynd“ varð að „Sjónmáli“ sem svo varð að „Samfélaginu“.

Morð ársins: Orð kvöldsins.

Sárabót ársins: Ríkisútvarpið tilkynnti að til að koma til móts við þá sem söknuðu Orðs kvöldins, yrðu nokkrar bænir settar inn á vef Ríkisútvarpsins.

Kvöldverk ársins: Á elliheimilum landsins heyrist nú reglulega sagt á kvöldin: „Ætli ég fari ekki að halla mér. Best að fara fyrst inn á rúvpunkturisskástrikbaenirfyrirgamlalididmedkvedjufratheimsemeigairaunrikisutvarpid, og lesa eins og eina bæn. Hún er eftir hann Ævar.“

Ríkisútvarp ársins: Síðasta lag fyrir auglýsingar.

Yfirtaka ársins: Með útsjónarsemi, harðfylgni og fimmtán ársmiðum í WorldClass náði Sigurður G. Guðjónsson meirihlutaeign í hatti Reynis Traustasonar.

Nærgætni ársins: Innanríkisráðuneytið boðaði frumvarp sem snerist um að taka ýmis niðrandi orð úr lögum. Til dæmis skyldi ekki talað um „fatlaða“ heldur „fatlað fólk“.

Varkárni ársins: Flestir glæsilegustu leikarar Hollywood létu taka af sér nektarmyndir til persónulegra nota. Til öryggis geymdu þeir myndirnar á öruggasta svæði allra öruggra svæða. Í „tölvuskýi“ Apple, sem hefur þann kost að þar má nálgast myndirnar hvaðan sem er úr heiminum.

Leigubílastöð ársins: Jafnréttisstofa.

Áhrif ársins: Forsætisráðherra Bretlands hótaði að beita sér fyrir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu ef Jean-Claude Juncker yrði valinn forseti framkvæmdastjórnar þess. Í Brussel var öllum sama.

Stríð ársins: Þegar búið var að velja Juncker sagði forsætisráðherra Bretlands að nú væri landið „komið í stríð í Evrópu“. Í Brussel er öllum sama. Þar hafa menn nefnilega ekki heyrt alla Spegilsþættina eða setið málþing Smáríkjastofnunar Háskóla Íslands, þar sem sýnt er fram á „áhrif smáríkja innan Evrópusambandsins.“ Sennilega er Bretland ekki nógu smátt til að fá áhrifin.

Umsækjandi ársins: Innanríkisráðherra valdi Sigríði Björk Guðjónsdóttur nýjan lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Hún taldi ekki þörf á að auglýsa starfið. Þegar spurt var um málið á þingi sagðist hún hafa viljað fá konu í starfið.

Kynjahlutfall ársins: Fréttablaðið sagði frá því í forsíðufrétt að ekki væri jafnt kynjahlutfall í stétt plötusnúða í Reykjavík. Rannsókn blaðsins hefði leitt í ljós að af 56 plötusnúðum, sem myndu skemmta í miðbæ Reykjavíkur í ágústmánuði, væru 36 karlar en 20 konur.

Fjölbreytileiki ársins: Í tilefni gleðigöngunnar birti Fréttablaðið forsíðuviðtal við Hilmar Magnússon formann Samtakanna 78 og Sigríði Birnu Valsdóttur, sem bæði eru samkynhneigð en ákváðu að eignast barn saman. Þau sögðu að sér væri alveg sama hvort barnið yrði samkynhneigt eða með Down‘s heilkenni. Ekkert kæmi í veg fyrir að menn elskuðu barnið sitt. „Ég hef eiginlega meiri áhyggjur af því að hann verði sjálfstæðismaður“ sagði Sigríður. Svo kom fram að Hilmar hafði sett eitt skilyrði, að barnið yrði ekki skírt.

Smár ársins: Í ljós kom að Már Guðmundsson hafði þegið að seðlabankinn borgaði kostnað Más af því að Már tapaði máli sem hann höfðaði gegn bankanum.

Umboðsmaður ársins: Í ljós kom að Lára V. Júlíusdóttir bankaráðsformaður hafði ákveðið þetta, án þess að láta bankaráðið vita. Núverandi bankaráð er enn að velta málinu fyrir sér.

Málskostnaður árins: Máskostnaður seðlabankans.

Súkkulaðikleina ársins: Ragnheiður Elín Árnadóttir viðskiptaráðherra gerir ekkert til að afnema kynjakvóta í stjórnum einkafyrirtækja. Hún er önnum kafin við að innleiða náttúrupassa.

Skrifstofur ársins: Leiðtogar vinstriflokkanna í borgarstjórn ákváðu að þeir sjálfir fengju sérstakar skrifstofur í ráðhúsinu en aðrir borgarfulltrúar þyrftu að deila skrifstofum í öðru húsi, nokkrir saman. 

Afturganga ársins: Vilborg Arna gekk aftur á bak upp á Esju. Ingþór mun ekki láta þessu ósvarað.

Ráðstefna ársins: Hvorki fleiri né færri en 360 íslenskar konur sóttu mikilvæga jafnréttisráðstefnu í Malmö í Svíþjóð. 

Krafa ársins: Vinstrimenn á þingi kröfðust þess að menntamálaráðherra færi ekki á vetrarólympíuleikanna í Rússlandi, vegna þess að þar í landi væru mannréttindi samkynhneigðra ekki virt.

Fögnuður ársins: Vinstrimenn á þingi voru meðal áköfustu stuðningsmanna þess að staðfestur yrði fríverslunarsamningur Íslands við kommúnistastjórnina í Kína.

Skipun ársins: Fjármálaráðherra auglýsti starf seðlabankastjóra og skipaði svo Má Guðmundsson. 

Saflát ársins: SAF lét af stuðningi við náttúrupassann.

Kosningaúrslit ársins: Tók enginn eftir því að meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur féll í kosningunum? Missti tvo borgarfulltrúa frá síðustu kosningum. Eftir allt tal álitsgjafa um það hve vel þeir hefðu staðið sig.

Vígstaða ársins: Sjálfstæðismenn í borgarstjórn sjá ekkert athugavert við það að oddviti þeirra sé jafnframt formaður Samtaka sveitarfélaga og þurfi sem slíkur að starfa náið með borgaryfirvöldum.

Árangur ársins: Nú eru meira en 600 dagar liðnir frá því ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms missti þingmeirihluta sinn og ESB-flokkarnir fengu rúmlega 20% atkvæða. Enn er Ísland umsóknarríki í Evrópusambandið.

Söngvakeppni ársins: Íslendingar reyndu enn að sigra í evrópskri söngvakeppni. Nú létu þeir söngflokkinn „Opna og fordómalausa stráka í litskrúðugum búningum“ syngja lagið „Við höfum öll réttu viðhorfin“, en Austurríki trompaði með skeggjaðri konu. Sennilega vinnum við ekki fyrr en við látum Guðrúnu Ögmundsdóttur rappa stofnskrá Hjallastefnunnar.

Klukka ársins: Að sjálfsögðu Einar.

Fól ársins: Pistlahöfundurinn Dagur Hjartarson sagði í Ríkisútvarpinu að starfsmenn Útlendingastofnunar væru „fól á fullum launum við að reikna líf annarra út frá lögum sem gera ekki grein fyrir mannsálinni.“

Jafnvægi ársins: Vill einhver geta hvort Ríkisútvarpið bauð einhverjum rými við hljóðnemann til að andmæla fullyrðingum pistlahöfundarins?

Þingræður ársins: Í þingumræðum þann 11. mars ræddi Páll Valur Björnsson, þingmaður djúpsjávarflokksins Bjartrar framtíðar, afturköllun Evrópusambandsins með þeim hætti sem flokkur hans hefur getið sér orð fyrir.

Hugmyndaleysi ársins: Í þingræðu sem hófst klukkan 16:31 sagði Páll Valur: „Nú hef ég ekki hugmynd um það frekar en nokkur einasti maður á Alþingi hvort það sé til hagsbóta fyrir okkur að fara í ESB. Ég hef bara ekki hugmynd um það.“

Sannanir ársins: Í annarri þingræðu, sem hófst klukkan 16:51, bætti Páll Valur við: „Fyrir mér eru nægar sannanir komnar fram fyrir því að betra sé fyrir okkur að vera í Evrópusambandinu. En ég þori ekkert að fullyrða um það, ekki fyrr en samningur liggur fyrir, ekki frekar en í öllum öðrum málum.“

Hagsmunamál ársins: Í næstu ræðu, sem hófst klukkan 16:55, var staðan orðin þessi: „Eitt af stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar í mínum augum er innganga í Evrópusambandið eða aðildarviðræðurnar og það er búið að vera það í mörg ár. Það mun verða mitt baráttumál áfram. En við getum haldið áfram að svamla hér í kviksyndi fáviskunnar og taka afstöðu til hlutanna án þess að hafa kynnt okkur þá.“

Fundarmenn ársins: Þegar deilt var um afturköllun Evrópusambandsumsóknar gerði Ríkisútvarpið sérstaka frétt um að fólk hefði komið saman fyrir utan Alþingishúsið og veifað banönum. Nánar tiltekið voru þetta fimmtán manns.

Þreföldun ársins: Í fyrra náði Ríkisútvarpið að senda beint út frá mótmælasamkomu þar sem viðstaddir voru, að sögn fréttamanns, „um fimm manns“, svo fréttin af fimmtán manna mótmælunum er ekki met.

Forneskja ársins: Salman Tamimi sagði í blaðaviðtali um fylgi Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum: „Þetta fylgi þeirra byggðist á hatri. Þetta er gamaldags hugmyndafræði sem byggist á að æsa fólk og etja því saman til að ná völdum.“

Nútímaviðhorf ársins: Salman Tamini var spurður í sjónvarpsviðtali hvort hann myndi framkvæma athöfn fyrir samkynhneigt par í bænahúsi múslima og svaraði: „Það getum við ekki gert. Þetta er synd. Ef það kemur einhver og segir: „Ég ætla að vera múslimi en ég ætla að vera samkynhneigður.“ Það má ekki. Það má ekki.“

Samkeppnismálaráðherra ársins: Einn ríkisnáttúrupassa fyrir alla ferðamenn og staðina sem þeir vilja skoða. Ívilnunarsamninga og sértækar aðgerðir fyrir þóknanleg fyrirtæki. Ekki fjölga mögulegum kaupendum raforku af Íslendingum með sæstreng. Orkurýrt og dýrt alkóhól sem eykur eyðslu í bílvélum skal á alla bíla með lagaboði, skattfríðindum og ríkisstyrk en ella sæti söluaðilar sektum og gjaldþroti.

Forseti ársins: Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá því að „Shinzo Abe, forseti Japans“, væri kominn á vetrarólympíuleikana í Rússlandi. Ekki kom fram hvort Akihito keisari hefði eitthvert hlutverk í ríkisstjórn hins nýja  forseta.

Aðhald ársins: Frosti Sigurjónsson veitti Frosta Sigurjónssyni markvert aðhald og leiðrétti yfirlýsingar hans um viðmiðunarmörk bankaskatts ítrekað.

Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.