Þriðjudagur 30. desember 2014

Vefþjóðviljinn 364. tbl. 18. árg.

Eins og hér hefur verið vikið að af og til ákvað hreina vinstri stjórnin að óhreinka andrúmsloftið aðeins með því að ýta undir notkun Dieselbíla á kostnað bensínbíla með margvíslegri mismunun í skattlagningu þeirra.

Hvar voru þau samtök sem kalla sig umhverfisverndarsamtök og þiggja jafnvel fyrir það ríkisstyrki árlega þegar þetta var ákveðið?

Á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda er sagt frá því að í Bretlandi og Frakklandi vilji menn ólmir draga úr Dieselbílaeign landsmanna:

Í Frakklandi eru dísilknúnir bílar nálægt því að vera 80 prósent alls bílaflotans sem er í umferð. Nú ætla stjórnvöld þar að vinda ofan af dísilvæðingunni í áföngum og fækka dísilbílunum mjög með því að skattleggja þá og eldsneytið á þá sérstaklega. Ástæðan er útblásturs- og öragnamengun sem telst heilsuspillandi. Bresk stjórnvöld hyggjast fara svipaða leið og Frakkar og hugleiða nú hvaða leiðir skuli fara í þeim efnum. Til að ná markmiðum sínum hyggjast Frakkar draga úr eftirspurn eftir dísilolíu með vaxandi sköttum í áföngum. Jafnframt skal takmarka útblástur dísilfólksbíla með því að þrengja mörk leyfilegs magns útblástursefna frá eldri bílum sem þegar eru í notkun og takmarka útblástur frá þeim sem mest, bæði með því að setja í þá hreinsibúnað en líka með því að jafnvel banna akstur þeirra í miðbæjarkjörnum borga og bæja. Manuel Carlos Valls forsætisráðherra Frakklands segir þetta sjálfsagt mál enda séu dísilbílarnir í raun og veru ein stór mistök.

Allt er þetta með hreinum, eða öllu heldur óhreinum, óllíkindum. Stjórnmálamenn á harðahlaupum undan fyrri stefnu sinni.

Væri til of mikils mælst að stjórnmálamenn hættu að skipta sér af því hvers konar bílum ekur? Ja líklega er það óraunhæft. Hér var til að mynda lukkuriddari fyrir nokkrum árum sem lét eyða hundruðum milljóna króna af skattfé í „vetnissamfélagið“ sem átti að bresta á um svipað leyti og landið yrði laust við fíkniefnin.

En þróun bílvéla og orkugjafa fyrir þær mun auðvitað ekki eiga sér stað í ráðuneytum eða löggjafarsamkomum. Það besta sem slíkir aðilar geta gert er að flækjast ekki fyrir. Annars gera þeir bara óskunda eins og vetnissamfélagið, Dieseldekrið og lögin um endurnýjanlega eldsneytið eru dæmi um.