Mánudagur 29. desember 2014

Vefþjóðviljinn 363. tbl. 18. árg.

Í upphafi valdaferils síns skipaði ríkisstjórnin „hagræðingarhóp“, til að finna leiðir til „hagræðingar“ í ríkiskerfinu. Nú viðurkenna nefndarmenn að „nánast ekki neitt“ hafi verið hagrætt í ríkisrekstrinum undanfarin ár.

Formaður fjárlaganefndar alþingis segir í Morgunblaðinu í dag að menn hafi reynt að skera niður en reynslan sýni að „undirstofnanir ríkisins verja sig með kjafti og klóm. Kerfið ver sjálft sig og notar fjölmiðla óspart til að mynda samúð með viðkomandi stofnun.“

Þetta þurfti engum að koma á óvart. Menn ná ekki árangri í ríkisfjármálum með því að eyða fyrstu tveimur árum kjörtímabilsins í að ræða um „hagræðingu“. Það þarf að skera verulega niður á langflestum sviðum, skera svo mikið niður að ótal svið verða óþekkjanleg frá því nú er. „Hagræðing“ má alveg fylgja með, en enginn raunverulegur árangur næst nema send séu þau skilaboð strax að ákveðinn hafi verið verulegur raunverulegur niðurskurður, og að ekki verði hætt við hann þótt fjölmiðlar hamist.

En núverandi stjórnvöld hafa ekkert þrek í slíkt. Þau brotnuðu meira að segja á nokkrum dögum þegar starfsmenn Ríkisútvarpsins kröfðust hærri fjárframlaga. Stjórnarmeirihlutinn ákvað að hækka framlög skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins, og segir það mikla sögu um baráttuþrekið í ríkisstjórninni.

Og þegar menn ná engum árangri á fyrstu tveimur árum kjörtímabilsins, hvaða árangri ætli þeir nái á síðustu tveimur?