Laugardagur 18. október 2014

Vefþjóðviljinn 291. tbl. 18. árg.

Samkeppniseftirlitið er byggt á þeim misskilningi að nokkrir embættismenn hafi meiri samanlagða þekkingu en milljónir neytenda.
Samkeppniseftirlitið er byggt á þeim misskilningi að nokkrir embættismenn hafi meiri samanlagða þekkingu en milljónir neytenda.

Það er í aðra röndina þakkarvert að Kastljósið skuli hafa látið nota sig til að birta það sem Samkeppniseftirlitið telur feitustu bitana sem fundust í margra ára skammti af tölvupóstum og öðrum gögnum flutningafyrirtækja með mörg hundruð starfsmenn.

Við öllum, sem starfað hafa utan ríkisstofnana, blasir að þessi innanhússsamskipti í flutningafyrirtækjunum, sem tilgreind voru í Kastljósi með undirspili og skyggingum að hætti spennumynda, bera engan vott um það stórkostlega samsæri gegn neytendum sem Kastljósið lét narra sig til að trúa.

Mega starfsmenn innan einkafyrirtækis (eintala) ekki lengur tala saman um hvar eigi að leita viðskipta og hvar ekki?

Tilvist Samkeppniseftirlitsins er byggð á sama misskilningi og annar áætlunarbúskapur; að alvitrir ríkisstarfsmenn geti séð gegnum holt og hæðir og greint vilja og væntingar þúsunda og milljóna neytenda. Samkeppniseftirliti ríkisins er beint gegn þeirri staðreynd að þekkingin á markaðnum er dreifð meðal þúsunda og milljóna neytenda og fyrirtækja.

Adam Smith sagði eitt sinn að atvinnurekendur kæmu vart svo saman að ekki yrði úr því samsæri gegn neytendum. Til þessara orða vitnuðu starfsmenn Samkeppnisstofnunar. En á sömu síðu í Auðlegð þjóðanna sagði Smith að ríkisvaldið ætti alls ekki að reyna að koma í veg fyrir þennan samblástur því það gengi gegn frelsi og réttlæti.

Það virðast engin takmörk fyrir því hve íslensk samkeppnisyfirvöld geta gengið langt í því að slíta orð manna úr samhengi.