Föstudagur 17. október 2014

Vefþjóðviljinn 290. tbl. 18. árg.

Fjölmiðlar segja margar fréttir af ályktunum sem sagðar eru samþykktar á félagsfundum Vinstrigrænna eða stjórnarfundum verkalýðsfélaga víða á landinu. Þessar ályktanir snúast um að í landinu sitji róttæk hægristjórn og hér hafi verið gerð umfangsmikil „nýfrjálshyggjutilraun“, næstum samfellt í tuttuguogfimm ár.

Sama söng má heyra í þingfréttum ljósvakamiðlanna. Orðhákar stjórnarandstöðunnar eru þar mjög reiðir yfir nýfrjálshyggjunni sem nú ríkir.

Einn af þeim sem fjallar um íslensk stjórnmál af skynsemi og birtir iðulega fróðlegar upplýsingar um ástandið er Óli Björn Kárason, sem auðvitað er aðeins varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Í grein sem hann birti Morgunblaðinu í ágúst árið 2012 og endurbirt er í bók hans, Manifesto hægri manns, segir hann meðal annars:

Frá árinu 1980 hafa útgjöld hins opinbera nær þrefaldast að raunvirði (mælt á verðvísitölu landsframleiðslu samkvæmt útreikningi Hagstofunnar). Fyrir 32 árum námu útgjöld ríkis og sveitarfélaga um 258 milljörðum króna á verðlagi ársins 2011. Á síðasta ári voru útgjöldin um 751 milljarður króna, þrátt fyrir nokkurn niðurskurð. Árið 1981 var meðalfjöldi Íslendinga rétt liðlega 228 þúsund en á síðasta ári 319 þúsund. Útgjöld á hvern Íslending voru því 1,1 milljón árið 1980 en tæpar 2,4 milljónir króna 2011. Þannig tvöfölduðust útgjöldin að raungildi á hvert einasta mannsbarn. Ef stjórnmálamenn á Alþingi og í sveitarstjórnum hefðu staðið á bremsunni frá árinu 1980 og haldið raungildi útgjalda á mann óbreyttu hefðu gjöldin verið 390 milljörðum lægri á síðasta ári en raun varð á. Þetta jafngildir 4,9 milljónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu eða liðlega 400 þúsund krónum á mánuði.

Aukning opinberra útgjalda hefur verið algerlega ótrúleg. Enn ótrúlegra er þó að stjórnmálamenn, verkalýðsfélög og aðrir sem vilja láta taka sig alvarlega tali opinberlega um að frjálshyggja ráði ríkjum í landinu.
Ef menn sendu frá sér ályktanir um að skátahreyfingin réði öllu í landinu og að ráðherrar hugsuðu ekki um neitt annað en að hnýta hnúta, myndu fréttamenn aldrei láta þá komast upp með slíkan málflutning. Sama ætti að eiga við um þá sem telja opinberlega að hér sé frjálshyggjuþjóðfélag.