Fimmtudagur 16. október 2014

Vefþjóðviljinn 289. tbl. 18. árg.

Forvitnileg frétt var í Morgunblaðinu í gær um mál sem kanna verður vandlega þegar það kemur til afgreiðslu á alþingi. Samkvæmt fréttinni hefur náðst samkomulag um „innleiðingu sameiginlegra reglna um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði, sem byggjast á svokallaðri tveggja stoða lausn“, og er haft eftir Bjarna Benediktssyni í blaðinu að þessi útfærsla þýði að ekki þurfi að breyta íslensku stjórnarskránni, eins og áður hefði verið talið.

Nú er sjálfsagt að flýta sér hægt í ályktunum um samkomulag sem ekki hefur verið birt og hugsanlegar lagabreytingar í framhaldi af því. En með þeim fyrirvara að enn á eftir að birta samkomulagið, verður hins vegar að hvetja menn til að fara varlega í að halda að hið nýja samkomulag sé í samræmi við fullveldi landsins, sem stjórnarskráin ver fyrir atlögum embættismanna.

Samkvæmt fréttinni felur samkomulagið í sér að „allar bindandi ákvarðanir evrópskra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði gagnvart EFTA-ríkjunum í EES-samstarfinu, þ.e. Íslandi, Noregi og Liechtenstein, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og að hægt verði að bera þær undir EFTA-dómstólinn.“ Þetta fyrirkomulag verður til þess að stofnanir Evrópusambandsins fá ekki eftirlitsvald á Íslandi, eins og Evrópusambandið vildi, og því telur fjármálaráðherra að samkomulagið sé í samræmi við stjórnarskrána.

Það er nú ekki svo víst. Þótt Ísland eigi aðild að Eftirlitsstofnun EFTA og Íslendingur sé meðal dómara EFTA-dómstólsins þá er ekki þar með sagt að stjórnarskráin leyfi að æðsta vald í íslenskum málefnun sé færð til þessara aðila. Með þeim rökum mætti færa æðsta valdið á öðrum sviðum til Norðurlandaráðs eða Unesco, því þar á Ísland fulltrúa.
Menn ættu að fara mjög varlega í að halda að þetta nýja samkomulag samrýmist fullveldi Íslands.