Miðvikudagur 15. október 2014

Vefþjóðviljinn 288. tbl. 18. árg.

Lífsstílsstjórnmálamenn funduðu gegn einkabílnum fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Þeir höfðu kannski sigur í kosningunum en nú hefur bílaumferð í borginni slegið öll fyrri met. Myndin er fengin af vef VG.
Lífsstílsstjórnmálamenn funduðu gegn einkabílnum fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Þeir höfðu kannski sigur í kosningunum en nú hefur bílaumferð í borginni slegið öll fyrri met. Myndin er fengin af vef VG.

Vegagerðin tilkynnti á dögunum að umferð bíla á höfuðborgarsvæðinu í ár yrði líklega sú mesta í sögunni, þar með talin árin 2007 og 2008.

Þetta er nánast með ólíkindum.

En tölur Umferðarstofu um fjölda fólskbíla segja sömu sögu. Fólksbílum fjölgaði um sex þúsund frá 2007 til 2013. Væntanlega er þessi aukning öll vegna bílaleigubíla sem auðvitað eru að verulegu leyti notaðir af erlendum ferðamönnum.

En það breytir því ekki að þrátt fyrir hrun fjármálakerfis, skattóða vinstristjórn og tvöföldun á bílverði og eldsneytisverði halda Íslendingar í bílana sína og halda áfram að aka þeim. Við efnahagslegt áfall eins og það sem varð haustið 2008 hefði kannski mátt búast við miklum samdrætti í bæði eign og notkun bíla og jafnvel varanlegri breytingu á ferðavenjum fólks, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. En tölur Vegagerðarinnar sýna að samdrátturinn í akstri var innan við 6% frá því umferðin náði toppi árið 2008 og þar til botni var náð 2011.

Og nú er toppinum frá árinu 2008 aftur náð.

Vefþjóðviljanum er auðvitað slétt sama hvort eða hvernig menn fara á milli staða. En það verður að viðurkennast að hann hefur ekki fellt mörg tár yfir því að landsmenn hafi ekki sinnt skipunum forsjárhyggjuliðsins um „bíllausan lífsstíl“.