Helgarsprokið 19. október 2014

Vefþjóðviljinn 292. tbl. 18. árg.

Fyrsta frétt Ríkissjónvarpsins í kvöld var að Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ sagði að vegið væri að réttindum launamanna í fjárlagafrumvarpinu.
Hvernig ætli hann og fréttamenn brygðust við ef einhvern tíma yrði lagt fram fjárlagafrumvarp þar sem stigin væru raunveruleg skref í átt að því að ná árangri í ríkisfjármálum?

Núverandi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á að leggja fram frumvarp til hallalausra fjárlaga. Það er vissulega betra en síðasta ríkisstjórn gerði. En óraveg frá því sem þarf að gera.

Auðvitað eiga fjárlög að vera hallalaus. Og ef fjárlög stæðust alltaf, aldrei yrði farið fram yfir fjárlög, og ef ríkissjóður væri skudllaus, væri ekki þörf á „afgangi“ á fjárlögum.

En hvorugt á við. Allir vita að fjöldi stofnana fer langt fram úr fjárlögum. Margt kemur upp á sem bregðast þarf við. Og margt sem engin þörf er að á að hið opinbera bregðist við en það bregst við samt.

Ríkissjóður skuldar háar fjárhæðir. Fyrir ári lagði núverandi ríkisstjórn fram sitt fyrsta fjárlagafrumvarp og þar var gert ráð fyrir hálfs milljarðs króna afgangi. Hvað ætli langan tíma tæki að borga niður skuldir ríkissjóðs, ef hálfs milljarðs króna fjárlagaafgangi yrði varið til þess, á hverju ári?

Ætli það yrðu ekki mörg ár? Mörg kjörtímabil líklega?

Fyrir ári reiknaði Davíð Þorláksson lögfræðingur það út, í tilefni fjárlagafrumvarps, að á slíkum hraða tækist að borga skuldir ríkisins á því herrans ári 5918.

5918.

Það þarf algerar gerbreytingar á opinberum rekstri á Íslandi. Það þarf að skera svo mikið niður að opinber rekstur verður næstum óþekkjanlegur frá því sem hann hefur fengið að vaxa í á síðustu árum. Í síðustu viku var hér vitnað til blaðagreinar Óla Björns Kárasonar varaþingmanns, þar sem hann benti á að frá 1980 til 2012 tvöfölduðust opinber útgjöld að raungildi á hvern landsmann. Það er ótrúleg aukning. Dettur einhverjum í hug að hann hafi fengið „þjónustu“ sem þessu nemur?

Hið opinbera er rekið fyrir nauðungargjöld sem tekin eru af fólki með valdi. Eyðsla opinberra útgjalda ætti að vera ákveðin með þetta í huga.
„Er þetta verkefni svo mikilvægt að rétt sé að leggja nauðungargjöld á landsmenn og innheimta þau með lögregluvaldi, til að fjármagna það?“
Hvernig færi ef menn spyrðu þessarar spurningar í hvert sinn sem réttlæta þarf opinber útgjöld?

Jú, margir vilja hafa opinber sjúkrahús. Að engum verði, efnahags síns vegna, neitað um nauðsynlega læknishjálp. Margir vilja opinbera skóla. Að öll börn geti fengið menntun við hæfi, óháð efnahag foreldra. Menn vilja hafa lögreglu til að halda uppi lögum og reglu, verja líf, öryggi og eignir fólks. Öryggisnet sem gætir þess að þeir sem vegna fötlunar, vanheilsu, elli og svo framvegis geta ekki unnið fyrir sér, fái bætur sem dugi til sæmilegs lífs.

Það er margt er mjög mörgum þykir nægilega nauðsynlegt til að réttmætt sé að fjármagna það með sköttum.

Það er hægt að ná verulegum árangri í opinberum fjármálum án þess að hætta þessu. Stundum er kannski hægt að ná sama árangri með hagkvæmari aðferðum og þá er hægt að skoða það, en meginatriðið er að það er hægt að ná miklum árangri án þess að breyta þessu.

Hvernig væri að menn ræddu af alvöru hvað sé nauðsynlegt og hvað sé í raun ekki nauðsynlegt heldur bara æskilegt.

Er nauðsynlegt að reka Jafnréttisstofu? Er nauðsynlegt að halda úti Sinfóníuhljómsveit eða er það kannski bara æskilegt? Hvað þarf hið opinbera að fjármagna mörg atvinnuleikhús í Reykjavík? Ríkið eitt og borgin annað? Þarf ríkið að niðurgreiða ferðakostnað íþróttafélaga? Hversu margir listamenn þurfa að vera á starfslaunum hverju sinni?

Ef ríki og sveitarfélög lækka álögur sínar á borgarana þá munu borgararnir halda meira fé eftir í vasanum. Þeir geta þá greitt aðgangseyri, keypt bækur, farið á tónleika, gengið í félög og greitt félagsgjöld og gert svo ótalmargt sem einhverjir halda að ekki geti þrifist án opinberrar niðurgreiðslu.

Ríkið og sveitarfélög verða að skera útgjöld niður um ótrúlegar fjárhæðir. Eftir það geta þau bæði greitt niður skuldir og lækkað álögur, öllum til hagsbóta.