Mánudagurinn 29. september 2014

Vefþjóðviljinn 272. tbl. 18. árg.

Nú er til umræðu hvort ríkið eigi að kaupa upplýsingar, sem munu vera stolnar, um innstæður Íslendinga á erlendum bankareikningum, í þeirri von að einhverjir reikningseigendanna hafi ekki gefið eign sína upp til skatts.

Væntanlega ætlar ríkið þá að greiða umtalsverða fjármuni fyrir þýfið og mun þá vonandi bjóða þjófnaðinn út á evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við lög og reglur: Ríkiskaup fyrir hönd skattrannsóknarstjórna óska eftir að kaupa illa fengin gögn um eigur Íslendinga erlendis. Þjófóttir lysthafendur skili tilboðum í strigapoka á skrifstofu Ríkiskaupa eftir myrkur.

Eins og svo oft, þegar talið berst að þeim sem beita brögðum til að greiða lægri skatta en þeir ættu að gera, má heyra ýmsar upphrópanir.

„Þeir sem svíkja undan skatti vilja að aðrir borgi fyrir þá menntun, heilsugæslu og alla aðra þjónustu“, er stundum æpt. En ætli margir skattsvikaranna borgi ekki mun hærri skatta, þrátt fyrir skattsvikin, en flestir þeir sem eru stóryrtastir. Maður nokkur ætti samkvæmt lögum að greiða 110 milljónir í skatt, en telur viljandi rangt fram og kemur greiðslunum niður í 100 milljónir. Hann brýtur lög, alveg rétt. En hann greiðir langtum meira í ríkiskassann en flestir þeir sem mest tala um skattsvik. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að þessi náungi fái menntun barna sinna og eigin heilsugæslu á kostnað allra annarra.

Þótt skattar séu allt of háir, þá eru skattsvik lögbrot. Þótt mönnum þyki skattarnir allt of háir veitir það mönnum ekki rétt til þess að koma sér með ólöglegum aðferðum undan því að borga þá. Menn eiga einfaldlega að borga það sem þeim ber að borga, hvort sem það eru skattar, sem eru lagðir á þá án þess að þeir fái neinu um það ráðið, eða skuldir sem þeir hafa stofnað til sjálfir.

Ríki og sveitarfélög ættu hins vegar að kappkosta að lækka skatta svo fólk muni um það. Þá munu fleiri borga skattana sína að fullu og eiga auk þess meiri afgang af laununum sínum til að borga þær skuldir sem þeir hafa sjálfir stofnað til.