Helgarsprokið 28. september 2014

Vefþjóðviljinn 271. tbl. 18. árg.

Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði svara í sama síma og Mjólkursamsalan. Þannig geta mjólkurmenn betur hagrætt.
Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði svara í sama síma og Mjólkursamsalan. Þannig geta mjólkurmenn betur hagrætt.

Tregðan til breytinga í frelsisátt í landbúnaðarkerfinu sé nánast einstök. Það mátti glöggt heyra á stjórnmálamönnunum í síðustu viku eftir að samkeppniseftirlitið sendi neytendum 370 milljóna króna reikning sem MS mun sjá um að innheimta með mjólkurverðinu næstu misserin. Ekki geta neytendur leitað annað með viðskipti sín. Sektin bætist við þær 6.600 milljónir sem innheimtar eru með almennum sköttum og sendar mjólkurbændum árlega til að viðhalda óhagkvæmni í greininni.

Flestir stjórnmálamennirnir sem rætt var við sögðu að auðvitað væri einokun og ófrelsi í mjólkurframleiðslu samsæri gegn neytendum. Það mætti ekki líðast. En svo komu allir fyrirvararnir, það yrði að stíga varlega til jarðar, ekki ana að neinu og gefið í skyn að ekkert mætti gera nema með samþykki núverandi mjólkurframleiðenda.

Guðni Ágústsson og félagar hjá hinum miklu „Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði“ eru svo á ferðinni með einhverja útreikninga um að hagræðing í greininni hafi skilað neytendum svo og svo mörgum milljörðum í ávinning á undanförnum árum. Þessi samtök vita auðvitað ekkert um hvernig verð og vöruúrval væri hér ef eðlilegir viðskiptahættir með mjólk fengju þrifist. Þau virðast heldur ekki skilja – eða vilja skilja – um hvað málið snýst. Neytendur vilja fá val um það við hverja þeir skipta og svo vilja menn almennt atvinnufrelsi án ríkisstyrkja í mjólkurbúskap þannig að framtaksamir menn geti reynt fyrir sér.

Það hefur enginn áhuga á að taka þátt í umræðu um einhverja loftkastala um hagræðingu afurðastöðva eða um einhverja endaleysu um mjólk í lausu máli, flutningskostnað og afslætti eða ekki afslætti í þessari hliðarveröld.

„Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði“ eru reyndar hýst í kjöltunni á MS á Bitruhálsi 1 og eru sömuleiðis með sama símanúmer til frekari þæginda. Aðildarfélög samtakanna eru þrjú, Auðhumla, KS og Mjólka. Auðhumla og KS eiga MS saman og KS á Mjólku. Fjölmiðlar geta því alveg sparað sér að ræða bæði við forstjóra MS og framkvæmdastjóra „Samtaka afurðarstöðva í mjólkuriðnaði“ eins og ýmis dæmi eru um undanfarið. Það kemur það sama úr öllum spenum á þessari.