Föstudagur 26. september 2014

Vefþjóðviljinn 269. tbl. 18. árg.

Minnihlutinn í borgarstjórn hefur það hlutverk að gagnrýna tillögur meirihlutans fyrir opnum tjöldum og tryggja þannig raunverulegt aðhald.
Minnihlutinn í borgarstjórn hefur það hlutverk að gagnrýna tillögur meirihlutans fyrir opnum tjöldum og tryggja þannig raunverulegt aðhald.

Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur virðist vera við sama heygarðshornið og undanfarin ár. Oddviti þeirra í minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur var í dag endurkjörinn formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn verið máttlaus. Einn og einn borgarfulltrúi hefur reynt að berjast gegn vinstrimennskunni sem hefur verið allsráðandi, en lítils mátt sín. Foyrsta borgarstjórnarflokksins hefur ekki gefið þar tóninn.

Árið 2010 fékk borgarstjórnarflokkurinn verstu kosningu sína í sögunni sem vissulega voru mörkuð af bankahruninu hálfu öðru ári fyrr. Oddviti hans brást við með því að þiggja boð nýs vinstrimeirihluta um að gerast forseti borgarstjórnar. Þar með gat oddvitinn ekki beitt sér í pólitískri baráttu í borgarstjórn. Nú ætlar oddviti sjálfstæðismanna að vera allt þetta kjörtímabil formaður Sambands sveitarfélaga.

Oddviti minnihlutans í borgarstjórn á ekki að gegna slíku starfi. Formaður Sambands sveitarfélaga sinnir allt öðru hlutverki en oddviti minnihlutans í stærsta sveitarfélaginu. Oddviti minnihlutans þarf að geta beitt sér í borgarmálum með öðrum hætti en sá sem þarf alltaf að gæta þess að geta verið sameiginlegur forystumanna sveitarstjórnarmanna á landsvísu.

Þetta er alls ekki einungis eitthvert mál sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Minnihlutinn í borgarstjórn hefur mikilvægu hlutverki að gegna sem stjórnarandstaða. Hann er fulltrúi þeirra borgarbúa sem ekki styðja meirihlutann. Hann er fulltrúi almennra borgarbúa sem þurfa að sætta sig við ákvarðanir meirihlutans. Minnihlutinn hefur það hlutverk að gagnrýna það sem frá meirihlutanum kemur, fyrir hönd þess stóra hluta borgarbúa sem ekki styðja meirihlutann hverju sinni. Það að vera í minnihluta er ekkert einkamál minnihlutans.

Á síðustu árum varð til tískukenning um að í raun ætti ekki vera neinn meirihluti eða minnihluti. Borgarfulltrúar væru bara einstaklingar sem ættu að vinna saman að hagsmunamálum borgarbúa. Sitja við hringborð og komast að sameiginlegri niðurstöðu í „pólitískri sátt“. Það er hreinlega rangt. Minnihlutinn hefur það hlutverk að gagnrýna tillögur meirihlutans fyrir opnum tjöldum og tryggja þannig raunverulegt aðhald við meirihlutann, sem og að sá stóri hluti borgarbúa sem ekki styður tillögur meirihlutans eigi raunverulega rödd í borgarstjórn.

Stjórnmálamenn sem ekki ráða við pólitískan ágreining eiga ekki að sinna pólitísku starfi. Lýðræðislegt þjóðfélag kallar á að fulltrúar ólíkra hugmynda berjist fyrir og rökstyðji hugmyndir sínar, en semji ekki bak við lokaðar dyr um ópólitíska samsuðu í nafni pólitískrar samstöðu.