Föstudagur 22. ágúst 2014

Vefþjóðviljinn 234. tbl. 18. árg.

Þrjár fréttir segja svolitla sögu um tíðarandann.

Ein þeirra hefur fyrirsögnina „Moody hættur vegna viðbjóðslegu skilaboðanna“ og þar er sagt frá því maður nokkur, Ian Moody að nafni, hafi látið af störfum sem yfirmaður knattspyrnumála hjá enska knattspyrnufélaginu Crystal Palace. Í ljós hafði komið, þegar fyrra félag hans lét rannsaka tölvu og síma Moodys að hann hafði sent félaga sínum nokkur skilaboð þar sem farið var ófögrum orðum um einhverja menn. Eða eins og mbl.is orðar það, þá voru skilaboðin „uppfull af kynþáttníði, kvenhatri og öðrum viðbjóði.“

Í næstu frétt er sagt frá manni sem ákærður hefur verið í Þýskalandi fyrir morð og fleira. Í fyrirsögn er spurt án nokkurs gildisdóms: „Er hann morðingi og mannæta?“ Í fréttinni er rakið að saksóknari telji að maðurinn hafi myrt annan mann á heimili sínu og síðan skorið líkið í litla bita og grafið í garði sínum. Fram kemur að maðurinn hafi haft „sérútbúið pyntingaherbergi“ í kjallara á heimili sínu, en mennirnir hafi kynnst í umræðum á vef „á vef þar sem slátrun og mann¬át¬sór¬ar eru mjög áber¬andi“, og segir í fréttinni að vefurinn þyki „sá besti í þessum fræðum.“

Í þeirri þriðju er fjallað á ný um sama mál og í fyrstu fréttinni, og þá er aftur komin ástæða til að tala um viðbjóð. Í fyrirsögn þar segir: „Mackay biðst afsökunar á viðbjóðnum“ og er þar sagt frá því að Malky Mackay, sem er félagi Ians Moodys, hafi beðist afsökunar á skilaboðunum sem þeir félaganir höfðu skipst á. Skilaboðin voru aðeins milli þeirra tveggja og birtust ekki opinberlega fyrr en enska knattspyrnusambandið komst í þau.