Laugardagur 23. ágúst 2014

Vefþjóðviljinn 235. tbl. 18. árg.

Er 20 metra krókur á 40 þúsund metra leið efni í æsing, barsmíðar, öskur og fréttir?
Er 20 metra krókur á 40 þúsund metra leið efni í æsing, barsmíðar, öskur og fréttir?

Í gær nefndi Vefþjóðviljinn nokkrar fréttir sem gætu verið til marks um tíðarandann.

Í dag bættist fréttin „Vörubílstjóri keyrði inn í þvögu hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu“ við á Vísi.

Þar segir frá viðskiptum vörubílstjóra sem er að reyna að sinna starfi sínu og fólki með númer fram á sér sem hleypur á götunni en ekki á gangstéttum. Leiðir bílstjórans og númeranna sköruðust því. Einn af áhangendum númeranna náði þessu stórmerkilega atviki á myndband og sendi það rakleiðis á fréttastofur sem sinna fólki í eigin heimi. „Sérð‘ann ég er með‘etta á vídeó.“

Einhver númeranna lemja í vörubílinn og garga á bílstjórann og er það að sjálfsögðu talið til marks um yfirgang bílstjórans.

Eimskipafélag Íslands, sem á fyrirtækið sem á vörubílinn, er búið að biðjast velvirðingar á því að bíll þess hafi þurft að fara um götuna.

En nokkrir hlauparanna tóku einfaldlega á sig 20 metra krók aftur fyrir vörubílinn til að komast þessa 40 þúsund metra sem þeir ætluðu sér og spöruðu sér öskur, vörubílabarsmíðar og klögumál til fréttastofa.