Föstudagur 25. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 206. tbl. 18. árg.

Enn þarf að spyrja: Hvenær verður bótaþegalistinn birtur?

Enn er það látið viðgangast að fjölmiðlar velti sér upp úr álagningarskrám landsmanna og velji þar einhverja gjaldendur út úr, reikni misrétt hvað þeir hafa haft í tekjur á síðasta ári, og birti svo. Hversu lengi á þetta að ganga svona?

Fyrir opinberum aðgangi að álagningarskránum eru fyrst og fremst færð tvær röksemdir. Í fyrsta lagi sé hér greitt í „sameiginlega sjóði“ og hver og einn eigi rétt á því að vita hvað aðrir borgi í sameiginlega sjóðinn. Í öðru lagi er það aðhaldið, að menn sem berast mikið á þori ekki að gefa upp örlitlar tekjur ef þeir vita að skrárnar verða birtar.

Hvorug röksemdin nægir til að réttlæta birtinguna. En ef þær duga, þá ætti einnig að birta bótaþegaskrár ríkisins.

Allar opinberar bætur eru greiddar úr „sameiginlegum sjóðum“. Ef menn eiga rétt á því að vita hversu mikið hver borgar í sameiginlega sjóðinn þá ættu þeir ekki síður að eiga rétt á því að vita hver fær borgað úr honum. Og aðhaldið af birtingu bótaþegaskrárinnar yrði miklu meira en af birtingu álagningarskrárinnar. Ýmsir myndu veigra sér við að þiggja atvinnuleysisbætur á sama tíma og þeir vinna „svart“ á verkstæðinu hjá kunningja sínum, ef þeir vissu að atvinnuleysisbótaskráin yrði birt. Ýmsir myndu hika við að svíkja út bætur ef þeir vissu að vinir og kunningjar fengju að vita að þeir væru bótaþegar.

En eru ekki viðkvæmar persónuupplýsingar að menn fái bætur? J’u, en ekki þykir mönnum slíkt standa í vegi því að birta upplýsingar um tekjur manna. Þurfa bótaþegar að skammast sín fyrir að þiggja bætur? Á maður, sem raunverulega er fatlaður, að skammast sín fyrir að þiggja örorkubætur? Eða maður sem vill vinna, leitar en fær hvergi starf, þarf hann að skammast sín fyrir að þiggja atvinnuleysisbætur? Finnst mönnum það? En ef ekki, hvaða rök eru þá gegn birtingu bótaþegalistans?

Vefþjóðviljinn er auðvitað ekki að leggja til birtingu bótaþegaskrár ríkisins. En þeir sem styðja opinberan aðgang að álagningarskrám verða að fara að átta sig á því að rökin fyrir þeirri birtingu eiga ekki síður við um bótaþegaskrána.

Hvenær ætla stjórnvöld að loka fyrir þennan snuðraraaðgang að álagningarskránum? Eða óttast þau kannski að það gæti orðið „umdeilt“, sem núverandi stjórnvöld hræðast víst mest?