Fimmtudagur 24. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 205. tbl. 18. árg.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er sem fyrr bara nokkuð bjartsýnn í tali um skattalækkanir, afnám skatta og einfaldara skattkerfi. Þó hefur ríkisstjórninn gert fátt annað en að hækka skatta og flækja skattkerfið fram að þessu. Hækkun skatta á fjármálafyrirtæki – sem viðskiptavinir þeirra greiða á endanum í vaxtamun og þjónustugjöldum – og auknar undanþágur fyrir ferðaþjónustuna eru dæmi þar um.

Nú hefur Sigmundur Davið Gunnlaugsson forsætisráðherra hins vegar sagt að bremsa þurfi skattalækkanir af vegna þenslunnar svonefndu. Það er svolítið ruglingsleg framsetning rétt á meðan skattahækkanir dynja á landsmönnum. Ætli hvarfli ekki að forsætisráðherra að draga úr fjáraustrinum úr ríkissjóði til að mæta þenslunni, til dæmis fækka tugmilljörðunum í rangnefndu leiðréttinguna?

Það sem Vefþjóðviljinn óttast þó mest í þessu sambandi er að landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði mjög eindregið um skattmál:

Landsfundurinn telur að lækka beri eftirfarandi skatta á komandi kjörtímabili:
tekjuskatt einstaklinga, sem jafnframt verði í einu þrepi, fjármagnskatt, tekjuskatt fyrirtækja, tryggingagjald , virðisaukaskatt sem jafnframt verði aðeins í einu þrepi, auðlindagjald, tollar og vörugjöld, eldsneytisgjöld, erfðafjárskatt, áfengisgjald.
Þá telur landsfundur að stefna beri að afnámi eftirtalinna skatta:
eignarskattar, þar með talinn svokallaðan „auðlegðarskatt“, stimpilgjöld, gistináttagjald, kolefnisgjald á eldsneyti, raforkuskatt, bifreiðagjöld.

Þetta er sami fundur og lagði sérstaklega fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins að segja NEI við löglausum kröfum um ríkisábyrgð á Icesave skuldunum og að slíta nú aðildarviðræðum að ESB. Það er því ekki beinlínis hægt að segja að hin fína ályktun landsfundarins um skattamál hafi líkurnar með sér.