Helgarsprokið 20. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 201. tbl. 18. árg.

Það er einkennlegt á að líta að elsti stjórnmálaflokkur landsins sé í raun aldrei annað en sundurlaus samtíningur og eigi oftar en ekki í basli með að manna framboðslista sína, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem hringt er í alls kyns fólk sem aldrei hefur kosið flokkinn, hvað þá verið félagar í honum, í von um að það taki sæti ofarlega á framboðslistum hans.

Þetta blasir við öllum eftir farsann við skipan framboðslista flokksins til borgarstjórnar síðasta vor sem hefur svo þær afleiðingar að fyrsti varaþingmaður flokksins í Reykjavík segir sig úr flokknum ásamt fjölda annarra sem kannski hafa ekki stoppað þar svo lengi.

Í seinni tíð hefur þessi öldungur íslenskra stjórnmála einnig lagt sig niður við það fyrir kosningar að lofa fólki hlutum sem hann getur alls ekki staðið við.

Skemmst er að minnast loforðanna um „skuldaleiðréttingu“ sem erlendir hrægammar áttu að borga en lendir á ríkissjóði og skattgreiðendum framtíðar.

Fyrir þingkosningarnar 2009 lofaði flokkurinn nýrri stjórnarskrá og að sótt yrði um aðild að ESB enda þá nýbúinn að koma Jóhönnu og Steingrími til valda með því að styðja minnihlutastjórn þeirra. Ætlunin var að njóta lífsins áfram með þeim eftir kosningar. Þegar það gekk ekki eftir varð flokkurinn heldur andsnúinn þessum helstu málum vinstri stjórnarinnar.

Frægast er þó loforðið um 90% lánin frá 2003. Sjónvarpsauglýsingar flokksins sýndu eldri hjón sem áttu bágt með svefn vegna háværra rekkjubragða ungmenna á heimilinu. Með 90% lánum gætu ungmennin flutt að heiman og hjónin fengið svefnfrið. Skuldaleiðréttingunni nú áratug síðar er svo ætlað að „leiðrétta“ afleiðingar þess að menn tóku 90% lánin og lentu í vandræðum með þau.