Vefþjóðviljinn 202. tbl. 18. árg.
Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur boðað að hann muni á næsta þingi leggja fram frumvarp um aukið frelsi í áfengissölu. Baráttan gegn frumvarpinu er þegar hafin og þeim röksemdum beitt að drykkja muni aukast ef fólk á auðveldara með að nálgast drykkina, og að ágóði af áfengisverslun muni nú renna til kaupmanna fremur en ríkisins.
Hugsanlega er hvort tveggja rétt, en það ætti samt ekki að ráða úrslitum í málinu. Auðvitað má minnka sölu á næstum hvaða varningi sem er með því að leyfa ríkinu einu að selja hann. Og auðvitað munu kaupmenn hagnast ef þeim verður leyft að selja vöru sem þeim er bannað að selja í dag.
Hugsanlega gæti auðveldað einhverjum að samþykkja væntanlegt frumvarp Vilhjálms Árnasonar ef þingmenn myndu við það beita aðferð sem þeir beita sárasjaldan, en ættu að nota oftar.
Hvernig væri að nota oftar „sólarlagsákvæði“ í lögum?
Með sólarlagsákvæði er átt við lagaákvæði sem fellir lög úr gildi á fyrirfram ákveðnum degi. Sé slíkt ákvæði í lögum þurfa andstæðingar þeirra ekki að óttast að lögin standi óbreytt um alla tíð, nema reynslan af þeim þyki svo góð að síðari þingmenn ákveði að fella sólarlagsákvæðið úr gildi. Ef sólarlagsákvæði yrði sett í lögin sem heimilaði frjálsa áfengisverslun, þá gætu bannsinnar huggað sig við það að gamla ástandið tæki sjálfkrafa við aftur, nema lögum yrði aftur breytt. Stuðningsmenn frumvarpsins geta á sama hátt hugsað að reynslan verði slík að engum detti annað í hug en afnema sólarlagsákvæðið í tæka tíð.
Auðvitað væri nær er að setja slík ákveði á ýmis boð og bönn en almennt frelsi nema menn líti svo á að allt sé bannað nema það sem er sérstaklega leyft með lögum.
Það væri því meiri ástæða til þess í mörgum öðrum málum að setja tímasett sólarlagsákvæði. Það er algengt að hagsmunahópar fái ráðherra til að bera fram frumvörp, og hafa áður í marga mánuði sagt ráðherranum að allir í sama geira telji málið mikið framfaraspor. Ný lög muni til dæmis ekki kosta neitt, því svo mikið muni sparast „annars staðar“. Yfirleitt er þetta hrein vitleysa, en hagsmunahóparnir vita að þegar málið hefur verið knúið í gegn er sigur unninn, hvað sem reynslan segir. Til að fá göng grafin þarf bara að leggja fram einhverja útreikninga, því göngunum verður ekki lokað þótt útreikningarnir reynist vitleysa.