Föstudagur 18. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 199. tbl. 18. árg.

Það getur verið hjákátlegt þegar hrifnæmir Evrópusambandssinnar byrja að lýsa þeim góðu áhrifum sem sambandið hafi haft á álfuna og jafnvel heiminn allan. Margir þeirra virðast einnig sannfærðir um að þessi góðu áhrif séu röksemd fyrir inngöngu Íslands í sambandið.

Það sem Evrópusambandssinnar nefna yfirleitt fyrst er að Evrópusambandið hafi „tryggt frið í Evrópu“ frá lokum síðari heimsstyrjaldar. En Evrópusambandið og forverar þess hafa ekki verið hernaðarbandalag, að minnsta kosti ekki enn svo neinu nemi. Flest Evrópulönd og mörg önnur ríki hafa hins vegar lengi átt aðild að einu slíku, Atlantshafsbandalaginu, og það er það sem miklu fremur hefur tryggt frið og öryggi í Evrópu. Árás á einn er árás á alla. Sá sem ræðst á eitthvert Evrópuríkið í Nató, er þar með kominn í stríð við öll hin aðildarríkin, Bandaríkin þar með talin.

Hversu oft hafa menn heyrt hrifnæma Evrópusambandssinna segja að Evrópusambandið hafi tryggt frið í Evrópu?

En hversu oft hafa menn heyrt þá segja að Nató hafi eitthvað með friðinn að gera?

Þeir sem árum saman fullyrða, til þess að gylla sambandið fyrir Íslendingum, að Evrópusambandið hafi tryggt frið í Evrópu í áratugi, en nefna aldrei Atlantshafsbandalagið í því samhengi, hversu mikið ætli sé að marka annað sem þeir segja í sama tilgangi?