Helgarsprokið 13. júlí 2014

Stundum er hér nefnt hversu ónákvæmt og jafnvel villandi orðalag er algengt í þjóðfélagsumræðunni.

Sígilt dæmi er „leiðrétting“, þegar menn krefjast kjarabóta eða leggja til einhverjar aðgerðir. Árum saman hafa fréttamenn sagt frá því að þessi og þessi stétt krefjist „launaleiðréttingar“, þótt allir starfsmenn fái greidd rétt laun samkvæmt samningum. Séu útborguð laun rétt, er ekki hægt að leiðrétta þau. Launahækkun er ekki leiðrétting, nema launin hafi verið röng áður.

Þetta ítrekaða verkalýðsforkólfa- og fréttamannaorðalag varð síðan að opinberu orðalagi þegar skuldalækkanaaðgerðir stjórnvalda voru nefndar leiðrétting. Þar var heldur engin leiðrétting. Aðgerðirnar voru ekki til þess að leiðrétta ranga útreikninga heldur einfaldlega af því að stjórnvöldum þóttu rök vera fyrir lækkun skuldanna. Skuldalækkun er þar hlutlaust orð og geta stuðningsmenn og andstæðingar aðgerðanna notað það vandræðalaust. Þegar talað er um „leiðréttingu“, hvort sem það er  launa, skulda eða annars, er notað orð sem er allt annars eðlis. Hver er á móti leiðréttingu? Hver vill að hlutirnir séu „rangir“?

Önnur ónákvæm orðanotkun hefur verið algeng síðustu ár. „Skuldarar“. Aðgerðir í þágu „skuldara“. Málefni „skuldara“. Í flestum tilvikum þegar rætt hefur verið um stöðu „skuldara“ hafa menn í raun átt við fólk í vanskilum en ekki skuldara. Auðvitað má segja að allir sem lenda í vanskilum séu skuldarar, en það er mjög langt frá því að allir skuldarar séu í vanskilum. Langflestir standa við skuldbindingar sínar og dettur ekki annað í hug. Af hverju eru hlutirnir ekki kallaðir sínum réttu nöfnum? Séu aðgerðar hugsaðar til þess að bæta stöðu þeirra skuldara sem ekki standa í skilum, en ekki þeirra skuldara sem standa við sitt, þá á að segja það. Þá eru þetta aðgerðir í þágu þeirra sem eiga við vanskil að stríða. Það á ekki að láta eins og aðgerð, sem aðeins aðstoðar þann sem er í vanskilum en ekki þann sem borgar skuldir sínar, sé almenn aðgerð fyrir „skuldara“. Sérstakur skattaafsláttur til sjómanna var réttilega kallaður sjómannaafsláttur í daglegu tali, en ekki skattgreiðendaafsláttur, þótt allir sjómenn væru skattgreiðendur. Í réttri orðanotkun að þessu leyti felst engin óvild í garð þeirra sem aðgerðanna njóta. Það er einfaldlega hlutlaus lýsing að segja að sá sem er  í vanskilum sé í vanskilum.

Á síðustu dögum kosningabaráttunnar í vor braust út sú kenning meðal umræðumanna að Framsóknarflokkurinn hefði sýnt af sér „kynþáttahyggju“ í kosningabaráttunni, þegar flokkurinn í Reykjavík vildi ekki að reist yrði moska í borginni. „Ertu rasisti?“ spurðu sumir fréttamenn hvað eftir annað.

Það er merkilegt að margir þeirra sem ítrekað láta eins og skoðanir annarra markist af fráfræði, láti svo eins og það sé til marks um kynþáttahyggju að vera á móti uppgangi islam. Islam er ekki kynþáttur. Andúð á islam er ekki kynþáttahyggja. Menn geta verið algerlega á móti búddatrú, islam, kristindómi eða hvaða trúarbrögðum sem er, án þess að hafa minnsta snert af kynþáttahyggju. Um tíma virtist Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hafa raunverulegar áhyggjur af islam á Íslandi, en nákvæmlega ekkert í orðum frambjóðenda flokksins benti til kynþáttahyggju eða rasisma.

Eftir kosningar láta sömu frambjóðendur hins vegar eins og þeir hafi aðeins verið að tala um skipulagsmál, sem allir sem fylgdust með kosningabaráttunni ættu að vita að er ekki rétt. Í staðinn fyrir að gera annað hvort, halda sig við fyrri skoðanir og rökstyðja þær áfram, eða draga þær til baka og segjast hafa haft rangt fyrir sér, bera þeir því skyndilega við að þeir hafi verið að tala um eitthvað allt annað. Og sá fjöldi fólks, sem skyndilega kaus Framsóknarflokkinn í þeirri trú að með því væri hann að andæfa pólitískum rétttrúnaði, keypti auðvitað köttinn í sekknum. Eins og allir áttu að geta sagt sér fyrirfram.