Mánudagur 14. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 195. tbl. 18. árg.

Það fer varla fram hjá mörgum hversu erlendum ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað á allra síðustu misserum. Mörgum þykir nóg um og hafa áhyggjur af því að þessi straumur breyti ásýnd landsins.

Í Morgunblaðinu í dag er talað við Ólaf B. Schram fjallaleiðsögumann og ferðaþjónustubónda, sem segir að verið sé að eyðileggja „söluvöruna“ íslenska náttúru með „offjölgun ferðamanna“. Með sífellt auðveldara aðgengi á náttúruperlum sé verið að taka „ævintýrið úr ferðamennskunni“.

Kjölur var ævintýri, farðu bara 10 ár aftur í tímann; þetta var það fyrsta sem fólk sagði frá: Það fór Kjöl. Því þar þurfti að fara yfir Sandá, Stóralæk og Beljanda. Núna áttu á hættu að það sé Yaris að reyna að komast fram úr þér.

Þetta eru ábendingar sem vert er að hugsa alvarlega um. Auðvitað á ekki að bregðast við með því að leggja sérstakar nýjar opinberar hindranir í garð þeirra sem hingað vilja koma, en á hinn bóginn er sjálfsagt að ríkið standi ekki í herferðum til að lokka ferðamenn til landsins. Það er ekki hlutverk ríkisins. Sömuleiðis eiga stjórnvöld að marka þá skýru stefnu að Vegagerðin sé ekki þræll forkólfa samtaka ferðaþjónustunnar og draga mjög úr öllum aðgerðum til að gera hálendisvegi fólksbílafæra.

Fyrir nokkrum árum var lagður nýr vegur að Dettifossi, en sá eldri þótti harður og leiðinlegur. En það voru fyrst og fremst bílstjórar og leiðsögumenn, sem fóru hann daglega, sem höfðu af honum ama. Hvað var óeðlilegt við að vegur, sem lá af þjóðveginum og að einum magnaðasta fossi sem menn geta séð, væri þannig að hann yrði að aka hægt í hristingi og ryki?

En auðvitað gerir enginn sér vonir um að núverandi ráðherrar marki slíka stefnu. Þeir hlusta bara á „hagsmunaaðilana“ sem alltaf eru að tala við þá.