Mánudagur 23. júní 2014

Vefþjóðviljinn 174. tbl. 18. árg.

Í síðustu viku var hér rætt um þann atburð að Bandaríkjastjórn bauð íslenskum stjórnvöldum ekki að senda fulltrúa á ráðstefnu sem haldin var í landinu, og bar fyrir sig hvalveiðar Íslendinga.

Þetta litla mál minnir á tillögu Vefþjóðviljans um ráðstefnulaus ár.

Hver halda menn að sé árlegur kostnaður hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, af ráðstefnuhaldi og stórum fundum? Hann er ofboðslegur. Á dögunum voru 360 íslenskar konur á jafnréttisráðstefnu í Malmö í Svíþjóð. Hvað halda menn að það hafi kostað?

Samfelld menntaþingjafnréttisþing, ársfundir, samráðsfundir, fræðslufundir og hvað þetta er kallað, kosta gríðarlegt fé. Og auðvitað fer mikill tími fólks í undirbúning og þátttöku á slíkum fundum og ráðstefnum.

Hvernig væri nú að hið opinbera héldi ráðstefnulaust ár? Í eitt ár myndi hið opinbera ekki styrkja neina ráðstefnu og ekki senda fulltrúa á ráðstefnur. Heldur einhver að það yrði sjáanlegur skaði af slíku? Hvaða ráðstefnur eru svo mikilvægar að þær verður að halda á hverju einasta ári?

Og ef vel gengur þá er tilvalið að færa ráðstefnulausa árið næst að verða annað hvert ár. Til dæmis verði oddatöluárin án opinberra ráðstefna og óþarfra fundahalda.

Hver myndi sakna ráðstefnanna?