Helgarsprokið 22. júní 2014

Vefþjóðviljinn 173. tbl. 18. árg.

Fríverslunarsamningur milli ESB og Bandaríkjanna er mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga.
Fríverslunarsamningur milli ESB og Bandaríkjanna er mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga.

Evrópusambandið og Bandaríkin hafa rætt um fríverslunar- og fjárfestingarsamning undanfarið ár.

Sigríður Ásthildur Andersen skrifaði um viðræðurnar í Morgunblaðið 8. júní.

Hagvöxtur beggja samningsaðila, einkum ESB, eftir hrun hefur verið langtum minni en hagvöxtur í heiminum öllum. Án efa á það sinn þátt í samningsvilja ríkjanna nú.

Í alþjóðlegu samhengi er verslun yfir Atlantshafið minni ætla mætti. Einungis 25% af útflutningi í heiminum á sér stað yfir hafið og 31% af innflutningi. Verslun er hins vegar ekki eini mælikvarðinn á alþjóðaviðskipti. Fjárfestingar milli landa skipta jafnvel meira máli og þar er þungavigtin yfir Atlantshafið. Um 71% af allri erlendri fjárfestingu í heiminum er fjárfesting Bandaríkjanna í ESB eða öfugt. Þessar fjárfestingar eru grundvöllur atvinnu og hagsældar beggja vegna Atlantsála. Með fríverslunarsamningi vonast menn til að hægt verði að auka verslunina yfir hafið.

Fríverslunarviðræðurnar lúta ekki nema að litlu leyti að afnámi tolla, enda lágir tollar almennt í Evrópu og Bandaríkjunum. Afnám alls kyns tæknilegra viðskiptahindrana er hins vegar gríðarlega mikilvægt markmið. Einkum er horft til þess að taka upp gagnkvæma viðurkenningu á öryggis- og heilbrigðiskröfum varðandi matvæli og bifreiðar, samræmingu á útboðsreglum og alls kyns reglum er lúta að þjónustu og vernd hugverka, svo dæmi séu nefnd.

ESB hefur lengi talið samræmingu staðla og alls kyns krafna um öryggi auka samkeppni, nema þá væntanlega milli staðla sem er þó mikilvægt að séu einnig í þróun. En um leið er auðvitað lokað á vörur sem framleiddar eru eftir stöðlum utan sambandsins. Gagnkvæm viðurkenning ESB og annarra ríkja á stöðlum væri myndi hleypa lífi í samkeppnina um hylli neytenda, auka vöruúrval og leiða til betri kjara.

Sigríður segir svo frá stöðu EFTA ríkjanna í viðræðum ESB og Bandaríkjanna:

EFTA-ríkin eru ekki aðilar að fríverslunarviðræðunum. Stjórnvöld á Íslandi hafa hins vegar fylgst náið með þeim og í vikunni sem leið var ýmsum samtökum í atvinnulífi landanna kynntur gangur viðræðnanna af hálfu Bandaríkjamanna og gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við samningamenn Bandaríkjanna. Ekki lítur út fyrir annað en að Bandaríkjamenn leggi mikla vigt í viðræðurnar og séu mjög áfram um að þær leiði til samkomulags um eitthvað sem máli skiptir. Menn þar á bæ telja ekki ólíklegt að viðræðum verði lokið á árinu 2016.

EES-samningurinn hefur veitt Íslandi gríðarleg tækifæri á sumum sviðum en um leið dregið úr öðrum. Tæknilegar viðskiptahindranir gagnvart ríkjum utan ESB, sem leiða má af löggjöf ESB, hafa tvímælalaust dregið úr þeim árangri sem fríverslunarsamningurinn við ESB hefði getað skilað okkur. Það er afleitt fyrir litla þjóð í miðju Atlantshafi sem hefur átt í löngu og farsælu viðskiptasambandi við báðar heimsálfurnar að vera stillt þannig upp við við vegg með sín viðskipti. Ísland og EFTA-ríkin verða að nota hvert tækifæri sem gefst á vettvangi EES til þess að tala máli frjálsra viðskipta og hvetja til fríverslunarsamnings við Bandaríkin. Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og atvinnulífs.