Vefþjóðviljinn 175. tbl. 18. árg.
Í byrjun sumars bar Vefþjóðviljinn saman verð á grillum hér á landi og í Bandaríkjunum. Almennt virtust gasgrill tvöfalt dýrari hér en vestan hafs.
Gasgrill sem flutt eru hingað frá Bandaríkjunum bera 7% toll, 20% vörugjald og 25,5% virðisaukaskatt. Þar liggur skýringin að stórum hluta.
Nú eru sjónvörp auglýst sem aldrei fyrr vegna leikja á HM í Brasilíu.
Í reiknivél tollstjóra má sjá hvað gerist þegar menn koma með 100 þúsund króna sjónvarp til landsins. Á það eru lögð allt að sex gjöld og þar ef eru 7,5% tollur, 25% vörugjöld og 25,5% virðisaukaskattur fyrirferðamest. Verð sjónvarpsins rýkur upp um 70% við að færa það inn fyrir landamæri Íslands.
Það er ekki einleikið hvað stjórnvöld leggja sig fram um að skattleggja vörur eins og grill, sjónvörp, bíla, eldsneyti, áfengi af miklu offorsi. Það er eins og það sé sérstakt kappsmál að refsa fólki fyrir að vilja líta upp úr daglegu amstri, gera sér glaðan dag eða skoða sig um í veröldinni.
Áður fyrr voru skattar af þessu tagi nefndir lúxusskattar því vörurnar voru taldar til lúxusvarnings og nánast óþarfa. En er það ekki fremur raunin að sjálf skattheimtan breyti vörunum í lúxus á fárra færi?