Vefþjóðviljinn 171. tbl. 18. árg.
Á dögunum var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í viðtali við Viðskiptablaðið og talaði hann þar meðal annars um vörugjöld. Var á honum að skilja að stefnt væri að lækkun vörugjalda á aðrar vörur en áfengi og tóbak, eldsneyti og bifreiðar.
Það er auðvitað fagnaðarefni ef vörugjöld verða lækkuð verulega, og helst þannig að lækkunarinnar muni sjá raunverulegan stað í vöruverði. En hvers vegna á að undanskilja þessar mikilvægu neysluvörur?
Sérstaklega er ástæða til að amast við gjöldum sem lögð eru á áfengi og tóbak. Þau gjöld eru nefnilega ekki lögð á til þess að afla ríkissjóði tekna, heldur vegna persónulegrar andstöðu ráðamanna við að borgararnir neyti tiltekinnar vöru.
En slík barátta á ekki að fara fram með opinberri gjaldheimtu. Þeir sem telja að samborgararnir eigi ekki að neyta tiltekins varnings geta auðvitað beint fræðslu og áróðri að þeim, en skattheimta og gjaldheimta eiga ekki að vera vopn í slíkri baráttu.
Ef fullorðið fólk tekur sjálft þá ákvörðun að neyta áfengis, tóbaks, smjörs, rjóma, kjöts, kartaflna og sósu, þá er það ekki mál ríkisins. Það getur vel verið að menn taki þar ákvarðanir sem ekki eru skynsamlegar í ljósi líkamlegrar heilsu. En í því að vera frjáls maður felst meðal annars rétturinn til að taka slíkar ákvarðanir í eigin lífi.