Fimmtudagur 19. júní 2014

Vefþjóðviljinn 170. tbl. 18. árg.

Birtir OECD aðeins hagtölur sem eru þægilegar fyrir aðildarríkin? Hvers vegna gerir stofnunin ekki grein fyrir stöðu lífeyrismála?
Birtir OECD aðeins hagtölur sem eru þægilegar fyrir aðildarríkin? Hvers vegna gerir stofnunin ekki grein fyrir stöðu lífeyrismála?

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður vakti athygli á því á dögunum að í samanburðartölum efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD, er ekki að finna upplýsingar um lífeyrisskuldbindingar aðildaþjóðanna. Morgunblaðið hafði eftir Guðlaugi Þór 11. júní að ástæðan væri einföld; skuldbindingar margra þjóða séu svo miklar að samanburður á þeim kæmi sér sérlega illa.

Í Morgunblaðinu segir:

Guðlaugur óskaði nýverið eftir upplýsingum frá fjármála- og efnahagsmálaráðuneytinu um lífeyrisskuldbindingar OECD-ríkjanna. „Ég furðaði mig á því þegar ég fletti upp samanburðartölum að engar upplýsingar var að finna um lífeyrisskuldbindingar ríkjanna. Ég fékk ráðuneytið til þess að kanna málið og þessar tölur eru flestar til en eru afar óaðgengilegar,“ segir Guðlaugur.

Samanburðartölurnar eru mikilvægar fyrir þá sem eru að velta fyrir sér fjárfestingarkostum og því mikilvægt fyrir Ísland, sem stendur vel að vígi þegar kemur að lífeyrisskuldbindingum miðað við önnur lönd, að tölur um slíkar skuldbindingar séu inni í samanburðartölunum. „Þetta skiptir miklu máli þegar við erum að keppa um fjárfestingu og fólk. Þá eigum við að geta bent á samanburðartölurnar og sagt: Við erum í sterkri samkeppnisstöðu hvað þetta varðar, borið saman við eldri þjóðir,“ segir Guðlaugur.

Samkvæmt upplýsingunum frá OECD eru fá ríki með lífeyrissjóði þar sem raunveruleg sjóðsmyndun á sér stað. Þetta þýðir að í þeim löndum eru eignir lífeyrissjóða óverulegar og í raun mætti segja að um gegnumstreymiskerfi væri að ræða. Af 34 OECD-ríkjum eru aðeins níu þeirra með mikla sjóðsmyndun en í 21 ríki er um litla sjóðsmyndun að ræða. Eins og sést á skýringarmyndinni eru eignir lífeyrissjóða sem hlutfall af VLF í Frakklandi aðeins 0,3% og lífeyrisgreiðslur hins opinbera gríðarlega háar. Á Íslandi eru hins vegar eignir lífeyrissjóðanna miklar og hlutfall hins opinbera lítill hluti af VLF.

Allt er þetta með miklum ólíkindum, bæði tölurnar fyrir ýmis ríki Evrópu og ekki siður að þeim sé í raun haldið leyndum eða ekki birtar með skipulegum hætti.

Guðlaugur Þór bætir svo við:

„Þessar þjóðir eldast mjög hratt og það er ástæðan fyrir því að fólk hefur áhyggjur af samkeppnishæfni Evrópu. Stundum er talað um Evrópu sem dvalarheimili heimsins. Þetta eru auðvitað góðar fréttir fyrir Ísland því í þessum samanburði komum við mjög vel út. Okkar veikleiki er kannski frekar að lífeyrissjóðirnir okkar eru með of litlar eignir erlendis til þess að dreifa áhættunni.
Í mörgum löndum eru stórir árgangar skammt frá lífeyrisaldri og er búist við því að opinberar lífeyrisgreiðslur muni stóraukast á næstu árum. Ég skil ekki hvernig þessar Evrópuþjóðir ætla að vinna sig út úr þessu, sér í lagi Frakkland, Ítalía og Spánn. Þegar fólkið eldist gerir það ráð fyrir sínum lífeyri og stjórnvöld ýta vandanum á undan sér. Það hefur áhrif á samkeppnishæfni svæðisins. Þetta hefur hins vegar lítið verið í umræðunni og hafa þessi lönd því hagsmuni af því að þessar tölur séu ekki aðgengilegar.“