Miðvikudagur 18. júní 2014

Vefþjóðviljinn 169. tbl. 18. árg.

Hvar endar það ef menn byrja að reikna sig frá atvinnufrelsinu og eignarréttinum?
Hvar endar það ef menn byrja að reikna sig frá atvinnufrelsinu og eignarréttinum?

Á dögunum var sagt frá því í fréttum að bandarísk stjórnvöld hefðu ekki boðið Íslandi að senda fulltrúa á ráðstefnu um málefni tengd hafinu og borið fyrir sig hvalveiðar við Ísland. Í fjölmiðlum fóru menn strax að velta fyrir sér hvort hvalveiðarnar borguðu sig, hvernig reikningsdæmið kæmi út þegar allt væri skoðað.

Hvenær ætli menn myndu hætta slíkum útreikningi, ef þeir ákveddu að láta undan fyrir slíkum þrýstingi á þessu sviði? Hvar ætli menn drægju mörkin og segðu að íslenskar reglur giltu á Íslandi, hvað sem þrýstingi í frekjum liði? Einn daginn er þrýst fast gegn hvalveiðum en hver veit hvers verður krafist næst?

Í Bandaríkjunum er hart deilt um fóstureyðingar og mikill fjöldi þingmanna sem vill ekki leyfa þær. Hvað myndu menn gera ef þeir samþykktu lög sem heimiluðu ekki tiltekin viðskipti við Ísland svo lengi sem fóstureyðingar eru leyfðar hér? Byrja að reikna hvort „þessi þrjóska borgar sig“? Margir vita hvernig farið er með samkynhneigða í múslimaheiminum. Hvað ef þar á bæ hæfu menn viðskiptaþvinganir gagnvart þeim sem hafa aðrar skoðanir á þeim málum? Ætli benn byrjuðu bara að reikna?

Nei auðvitað ekki. Þá segðu menn auðvitað að Íslendingar settu sínar eigin reglur og létu ekki viðskiptahagsmuni knýja sig til að laga þær að gildismati annarra. Og það eiga þeir líka að gera með hvalveiðarnar. Ákvörðun um hvort heimilt skuli að nýta hvalastofninn eins og aðra stofna á ekki að ráðast af því hvort öflugum ríkjum, sem vilja öllu ráða í kringum sig, líkar betur eða verr. Íslendingar eiga að setja sínar eigin reglur, jafnvel þótt það leiði til þess að embættismenn komist ekki á ákaflega mikilvæga ráðstefnu, þar sem þeir hefðu átt sviðið.
Auðvitað má lengi segja að mál séu misjafnlega stór. En í hvert sinn sem menn beygja sig að þessu leyti eru þeir búnir að lækka þröskuldinn. Næsta eftirgjöf verður alltaf auðveldari. “Við gáfum eftir varðandi hvalinn, ætlum við að fara að slást um þetta?”